Hin árlega Íslandsskýrsla efnahagsþróunarstofnunarinnar OECD er ekki Stóridómur útlendinga um árangur eða árangursleysi íslenzkra stjórnvalda í efnahagsmálum. Þessi skýrsla er að verulegu leyti samin í opinberum stofnunum á Íslandi, einkum í Þjóðhagsstofnun.
Hinir íslenzku höfundar skýrslunnar láta þýða á ensku úrdrátt úr sumu af því helzta, sem þeir láta frá sér fara á innlendan markað. Þeir velja þetta efni með hliðsjón af því, sem þeir vita um vestræna hagfræði eins og hún er stunduð í þessum virðulega klúbbi auðþjóða heims.
Þegar íslenzku höfundarnir hafa ritskoðað sjálfa sig, tekur OECD skýrsluna og athugar, hvort hún sé í samræmi við kennisetningar vestrænnar hagfræði. Í samræmi við það er skýrslan snyrt og gefin út undir merkjum og stimpli hinnar virðulegu stofnunar í París.
Að svo miklu leyti sem gagnrýni felst í þessari skýrslu, er um eins konar sjálfsgagnrýni að ræða. Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hafa þarna tækifæri til að koma á framfæri áminningum um ýmis atriði, sem þeir hafa ekki fengið framgengt innanbúðar í kerfinu.
Þar sem innihald þjóðarsátta hefur verið og er enn skemmtileg blanda af óskhyggju og veruleikafirringu, kemur ekki á óvart, að í þessari margfrægu ársskýrslu er varað við aðild ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum og þeim pökkum, sem hún leggur á samningaborðið.
Þegar Þjóðhagsstofnun er búin að þýða þessi sannindi á ensku og síðan þýða þau til baka á íslenzku með stimpli frá París, hljóðar áminningin svona: “Það er einnig mjög mikilvægt, að stjórnvöld fórni ekki festu í ríkisfjármálum fyrir frið á vinnumarkaði og litlar launahækkanir.”
Þessa fórn hefur ríkisstjórnin einmitt fært. Hún hefur lagt tvo milljarða á samningaborðið til að fá helztu samtök launafólks til að semja um engar launahækkanir í hálft annað ár. Ríkisstjórnin hefur tekið pólitískan veruleika fram yfir efnahags- og peningalegan veruleika.
Önnur mikilvæg áminning Þjóðhagsstofnunar, sem fyrst er búið að þýða á ensku og síðan aftur á íslenzku, hljóðar svo: “Samverkandi áhrif umhverfisþátta og ofveiði valda því, að allt eins má reikna með, að áfram verði óhjákvæmilegt að draga úr sókn í þorskstofninn.”
Þetta þýðir, að hagfræðingar kerfisins hafa gert sér grein fyrir, að skera verður niður aflakvóta á þorski í haust. Þeir vita, að stjórnvöld hafa ár eftir ár farið töluvert framúr tillögum Hafrannsóknastofnunar með hræðilegum afleiðingum fyrir þorsk og þjóð.
Forsætisráðherra telur, að taka verði pólitískan veruleika fram yfir fiskifræði- og efnahagslegan. Hann fylgir kenningu forvera síns um að gera mun á því, sem þorskurinn þoli og þjóðin þoli. Í skýrslunni reyna hagfræðingarnir að slá föstu, að þessi röksemd gengur ekki upp.
Skýrslan er ekki síður merkileg fyrir þau atriði, sem ekki eru í henni. Hagfræðingar íslenzka kerfisins hafa sem heild ekki enn áttað sig á stöðu hins hefðbundna landbúnaðar í þungamiðju efnahagsvandræðanna, þótt þar sé fórnað yfir 20 milljörðum króna á hverju ári.
Tala þessi kemur með því að taka meðaltal af tölum, sem hafa komið frá hagfræðingum, sem gegna mikilvægum stöðum í kerfinu. Þótt þeir séu hver fyrir sig þeirrar skoðunar, að landbúnaðurinn sé dýrasti dragbíturinn, taka þeir sem kerfi ekki á málinu í skýrslu sinni.
Meðan hagfræðingar kerfisins taka ekki á landbúnaði eins og þeir taka á ofveiði og þjóðarsáttum, er þægilegt fyrir kerfið að fórna áfram 20 milljörðum á ári hverju.
Jónas Kristjánsson
DV