Tæplega fjórða hver króna, sem Íslendingar afla sér með utanríkisviðskiptum, fer til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum. Langtímaskuldir þjóðarinnar nema um þessar mundir 190 milljörðum króna. Þar af er hlutur hins opinberra 107 milljarðar króna.
Helmingur af skuldum hins opinbera í útlöndum, rúmlega 50 milljarðar króna, stafar af óarðbærum framkvæmdum, sem varað hafði verið við og voru umdeildar áður en farið var út í þær. Hinn helmingurinn er óbein afleiðing peningabrennslu í landbúnaði.
12,6 milljarða orkuver við Blöndu og 7 milljarða orkuver við Kröflu eru fyrirferðarmikil í þessari skuldasúpu. Samanlagt jafngilda þessi tvö óþörfu orkuver samt varla hinni rúmlega 20 milljarða króna árlegri peningabrennslu í hefðbundnum og hjartfólgnum landbúnaði.Bann við innflutningi búvöru kostar þjóðfélagið 13-15 milljarða króna á hverju ári samkvæmt reikningum nokkurra hagfræðinga í Háskólanum og Seðlabankanum. Þeir reiknuðu þetta hver fyrir sig og notuðu mismunandi aðferðir, en komust að svipaðri niðurstöðu.
Við þetta bætast 7,5 milljarða króna útgjöld hins opinbera í beina styrki til hefðbundins landbúnaðar, uppbóta á útflutta búvöru og niðurgreiðslna, sem væru óþarfar, ef innflutningur ódýrrar búvöru væri leyfður. Alls er brennslan í landbúnaði yfir 20 milljarðar á ári.
Árleg brennsla peninga í landbúnaði jafngildir þannig mistökum áratugarins í byggingu óþarfra orkuvera. Hún jafngildir líka öllum umdeildum samgöngumannvirkjum langs tímabils, bæði þeim, sem lokið er eða hafin eru, og hinum, sem fyrirhuguð eru.
Borgarfjarðarbrúin kostar 2,1 milljarð, Leifsstöð 4,9 milljarða og ýmis vegagöng, einkum í Ólafsfjarðarmúla, 2,3 milljarða. Verið er að grafa 3,2 milljarða göng á Vestfjörðum og ráðgerð eru 7 milljarða göng á Austfjörðum. Samtals eru þetta 19,5 milljarðar.
Ekki er aðeins hægt að bera árlega verðmætabrennslu landbúnaðar saman við óþarfar virkjanir áratugarins og umdeild samgöngumannvirki. Einnig má bera hana saman við 16 milljarða króna tap opinberra sjóða af bjartsýniskasti fiskeldis og loðdýraræktar.
Þetta tap sjóðanna hefur ekki allt verið fært til bókar, en verður ekki umflúið. Mikilvirkastir á þessu sviði eru Atvinnutryggingarsjóður og Hlutafjársjóður, en Verðjöfnunarsjóður og Byggðastofnum komu líka til skjalanna. Tap ríkisbankanna er utan við þessar tölur.
Verðmætabrennsla í orkuverum og samgöngumannvirkjum, nýjum atvinnuvegum og hefðbundnum landbúnaði er ekki sök stjórnmálamanna og embættismanna einna. Varað var við öllu þessu á sínum tíma, en þjóðin kaus að taka ekki mark á úrtölumönnum og nöldrurum.
Athyglisverðast er, að mikill meirihluti þjóðarinnar er beinlínis fylgjandi dýrasta þætti verðmætabrennslunnar, banni við innflutningi búvöru, og sættir sig við útgjöld ríkisins til landbúnaðar, önnur en útflutningsuppbætur. Þjóðin vill láta nauðga sér á þennan hátt.
Meðan Íslendingar hafa slík sjónarmið, er ekki hægt að búast við, að raunvextir lækki úr þeim 13%, sem þeir eru núna. Peningabrennsla kallar nefnilega á peningahungur, sem endurspeglast í háum raunvöxtum.
Meðan fólk hefur slík sjónarmið, má ekki búast við bættum lífskjörum félagsmanna í stéttarfélögum. Peningar, sem brenndir eru, nýtast nefnilega ekki til að bæta kjör fólks. Menn geta sjálfum sér um kennt.
Jónas Kristjánsson
DV