Sjálfskaparvíti?

Greinar

Til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu hefur verið nefndur sá kostur, að reykingafólk greiði fyrir heilbrigðisþjónustu vegna reykingasjúkdóma á borð við lungnakrabbamein. Slíkir sjúkdómar séu sjálfskaparvíti reykingamanna. Fólk eigi að taka ábyrgð á heilsu sinni.

Þótt reykingar séu að nokkru leyti sjálfskaparvíti og þótt fólk eigi að taka aukna ábyrgð á heilsu sinni, hefur mál þetta miklu fleiri hliðar. Í fyrsta lagi er það margvísleg önnur hegðun en reykingar, sem veldur sjúkdómum og getur á sama hátt flokkazt sem sjálfskaparvíti.

Afleiðingar sykurneyzlu og ofáts af völdum hennar eru sennilega dýrari þáttur heilbrigðiskerfisins en afleiðingar tóbaksneyzlu. Ef reykingafólk á að borga fyrir sína sjúkdóma, er ekki síður ástæða til að láta sykurætur borga fyrir þá menningarsjúkdóma, sem þær fá.

Einnig má nefna áfengisneyzlu, sem að hluta til kann að vera sjálfskaparvíti á borð við sykurát og tóbaksneyzlu. Raunar kom Guðmundur Árni Stefánsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, fyrstur fram með þá hugmynd, að áfengissjúklingar borguðu fyrir sig.

Engan sérstakan greinarmun er hægt að gera á sjálfskaparvíti í notkun tóbaks, sykurs eða áfengis. Sjálfskaparvítið er aðeins þáttur málsins. Fólk er mismunandi næmt fyrir sjúkdómum, sem þessi þrjú fíkniefni valda. Sumir standast neyzlu þeirra, en aðrir ekki.

Að töluverðu leyti gera líkamlegar ástæður fólk misjafnlega næmt fyrir þessum sjúkdómum. Líkamlegu ástæðurnar eru að umtalsverðu leyti arfgengar, svo sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum á eineggja tvíburum, sem alast upp í mismunandi umhverfi.

Spurningin í framhaldi af þessu er þá, hvort refsa beri fólki fyrir að bera í sér arfgengar og líkamlegar forsendur þess, að það reykir, borðar eða drekkur sér til skaða. Það er siðferðileg spurning, sem tæpast er hægt að svara öðruvísi en algerlega neitandi.

Ekki má gleyma, að öll þessi efni, sykur, áfengi og tóbak, eru hættuleg fíkniefni eins og raunar ýmis fleiri efni, sem eru í daglegri og löglegri notkun. Fólk, sem ánetjast þeim, losnar ekki við þau, þótt það sé að öðru leyti viljasterkt fólk, eins og ótal dæmi sanna.

Í öðru lagi yrði greiðslukerfið ákaflega flókið og dýrt. Hvernig á að meta, hve mikils sykurs sjúklingurinn hefur neytt um ævina eða hversu mikils áfengis eða hversu mikið hann hefur reykt og hve lengi? Á fiktarinn að sitja við sama borð og stórreykingamaðurinn?

Auðvelt er að sjá fyrir sér skriffinnskuna, sem færi í að meta í hverju tilviki, hvort sjúklingur teldist að nægilega miklu leyti hafa bakað sér sjúkdóm sinn af eigin hvötum eða hvort arfgeng áhrif, önnur líkamleg áhrif eða illviðráðanleg umhverfisáhrif væru þyngri.

Þetta er hvorki siðleg né vitræn aðferð við að efla ábyrgð fólks á eigin heilsu og draga úr kostnaði heilbrigðismála. Nærtækara er að halda áfram á sömu braut og hingað til hefur verið gert, láta fólk borga meira fyrir vöruna, en láta tekjurnar renna til heilbrigðismála.

Sykur og sykurlíki, áfengi, tóbak og tóbakslíki á að skattleggja dýrum dómum og nota tekjurnar annars vegar til áróðurs og forvarna og hins vegar til lækninga. Tóbak og áfengi er raunar þegar skattlagt, en sykur, sykurlíki og sykraðar vörur hafa hingað til sloppið.

Eyrnamerktir skattar á fíkniefni eru eina leiðin til að afla fjár til að draga úr fjölda fíklanna og til að greiða kostnað hins opinbera af sjúkdómum fíklanna.

Jónas Kristjánsson

DV