Sjálfskaparvíti kjósenda

Greinar

Einkennilegt er, að fólk með kosningarétt telur sig yfirleitt ekki bera neina ábyrgð á gerðum sínum. Það telur eðlilegt að kvarta og kveina yfir gerðum stjórnvalda, en hefur ekki lyft litla fingri til að koma í veg fyrir, að gæzlumenn sérhagsmuna einoki störf Alþingis.

Alþingismenn taka flestir málstað sérhagsmuna fram yfir málstað almannahagsmuna, hvort sem fjallað er um grænmeti eða eitthvað annað, af því að þeir vita, að þeir komast upp með það. Kjósendur munu ekki láta umboðsmenn sérhagsmuna fá makleg málagjöld.

Starf alþingismanna og einkum þeirra alþingismanna, sem Alþingi gerir að ráðherrum, felst einkum í að veita sérhagsmunum brautargengi. Frægust dæmi um slíkt eru í landbúnaði og sjávarútvegi, en sama stefna einkennir líka störf ríkisstjórnar og Alþingis á öðrum sviðum.

Áratugum saman hefur verið bent á þá óhrekjanlegu staðreynd, að hefðbundinn landbúnaður á Íslandi er rekinn á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Sjálft vinnsluvirðið í greininni er alls ekki neitt og hefur raunar lengst af verið neikvætt á sumum sviðum greinarinnar.

Kjósendur vita vel um þessa umræðu og eru flestir sammála niðurstöðunum. Þeir vita, að þeir eru látnir borga hærri skatta en ella vegna þessa. Þeir vita líka, að þeir eru látnir borga meira fyrir matinn en ella vegna þessa. Þeir gera samt ekkert með þessa vitneskju.

Síðasta áratug var hörkuumræða um gjafakvótann í sjávarútvegi, sem felst í, að auðlindir, sem sjálft þjóðfélagið hefur með verndaraðgerðum bjargað frá hruni, eru afhentar fámennum hópi gæðinga, sem leigja síðan kvótann og selja eins og þeir eigi sjálfa auðlindina.

Kjósendur vita vel um þessa umræðu og eru flestir sammála niðurstöðunum. Þeir vita, að þeir eru látnir borga hærri skatta en ella vegna þessa. Þeir vita raunar, að þetta jafngildir öllum tekjuskatti einstaklinga í landinu. Þeir gera samt ekkert með þessa vitneskju.

Ráðherrar og alþingismenn styðja sérhagsmuni, af því að þeir eru öflugir og samstæðir og leggja sumir mikið fé í kosningasjóði. Ráðherrar og alþingismenn hafna almannahagsmunum, af því að þeir eru lágværir og sundraðir og fjármagna ekki kosningabaráttu.

Ef kjósendur tækju ábyrgð á gerðum sínum og veldu sér umboðsmenn í stjórnmálum eftir hagsmunum sínum sem skattgreiðendur og neytendur, sem um leið eru almannahagsmunir, mundu stjórnmálamenn ekki voga sér að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni.

Svo blindir eru kjósendur á eigin hagsmuni, að fæstir þeirra styðja Neytendasamtökin með aðild sinni, og svo starblindir eru þeir á eigin hagsmuni, að ekkert Skattgreiðendafélag er til, svo vitað sé. Stjórnmálamenn horfa á þetta sinnuleysi og haga sér auðvitað eftir því.

Stjórnmálamönnum er ekki hafnað í skoðanakönnunum og prófkjöri innan flokka, þótt þeir hafi það á samvizkunni að hafa tekið sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni. Stjórnmálaflokkum er ekki hafnað í kosningum, þótt þeir hafi lagt lóð sitt allt á sömu vogarskál.

Því ættu kjósendur ekki að kvarta og kveina, þótt landbúnaðarráðherra, aðrir ráðherrar, allir þingmenn stjórnarflokkanna og nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hækki matarverð með ofurtollum. Kjósendur ættu heldur að sparka þessum umboðsmönnum sínum úr starfi.

Meðan kjósendur neita að gæta hagsmuna sinna sem neytendur og skattgreiðendur er engin von til þess, að stuðningi við þrönga sérhagsmuni linni í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV