Fáir rísa upp til andmæla, þegar stjórnvöld bregða hnífi sínum á kjör sjúklinga, gamals fólks, öryrkja og námsmanna. Allt ætlar hins vegar af göflunum að ganga, þegar stjórnvöld eru að reyna að spara eitthvað á sviði byggðamála og annarra atvinnubótamála.
Það eru helzt starfsmenn þeirra stofnana, sem niðurskurðurinn beinist gegn, sem rísa upp til andmæla, svo sem kennarar og skólastjórar eða læknar og hjúkrunarkonur. Meirihluti almennings í landinu lætur sig hins vegar litlu varða um fjármál þessara stofnana.
Þetta er meginskýringin á, að ríkisstjórninni hefur tekizt eða er að takast að ná fram niðurskurði í heilbrigðismálum, tryggingamálum og menntamálum, sem nemur nokkur hundruð milljónum króna hér og þar. Þetta eru nefnilega mjúku málin, sem þjóðin hafnar.
Ríkisstjórninni tekst hins vegar ekki að fresta borun gata í fjöll eða atvinnubótavinnu í ríkisframkvæmdum. Hún bakar sér andstöðu meirihluta fólks, ef hún reynir að hrófla við ríkisrekstri landbúnaðarins. Fjármálaumræðan á Alþingi endurspeglar þessar staðreyndir.
Verst láta Íslendingar, þegar senda þarf álit ríkisstjórnarinnar á tillögum GATT-forstjórans um aukna og ódýrari strauma vöru og þjónustu um heiminn. Þá eru haldnir fundir um allt land til að koma í veg fyrir, að neytendastefna GATT nái fram að ganga hér á landi.
GATT er tolla- og viðskiptafélag rúmlega 100 ríkja. Níu af hverjum tíu krónum heimsviðskipta eru á sviðum, sem þessi stofnun lætur til sín taka. Hún er sjálfur hornsteinn þeirrar velmegunar, sem alþjóðleg viðskipti hafa fært Vesturlöndum á síðustu áratugum.
Það er meira eða minna fyrir tilstilli GATT, að ekki er innflutningsbann á íslenzkum fiskafurðum í öðrum löndum til að vernda sjávarútveg. Það er meira eða minna fyrir tilstilli GATT, að ekki eru háir tollar á íslenzkum fiski til að vernda útveg í öðrum löndum.
Engin þjóð í heiminum hefur grætt eins mikið á GATT og Íslendingar, ef miðað er við íbúafjölda. Engin þjóð á eins mikið undir því, að stefna GATT í utanríkisviðskiptum haldi áfram að eflast, en koðni ekki niður í nýju andrúmslofti verndarstefnu og viðskiptastríðs.
Í fimm ár hefur verið þjarkað án árangurs í GATT um frekari útvíkkun frelsis. Hún hefur strandað á sérhagsmunum, einkum landbúnaðar, sem víða um heim eru teknir fram yfir almannahagsmuni. Tillaga forstjórans er úrslitatilraun til að knýja fram niðurstöðu.
Þegar sjálf tilvera GATT er í húfi og heimsbyggðin stendur andspænis hættu á aukinni verndarstefnu og nýju viðskiptastríði, koma Íslendingar saman á hverjum fundinum á fætur öðrum til að heimta, að Ísland taki þátt í að grafa undan tillögum GATT-forstjórans.
Það er dæmigert fyrir Íslendinga að láta sig litlu skipta, þótt rifuð séu segl í heilbrigðismálum, velferðarmálum og menntamálum, svo skiptir nokkrum hundruðum milljóna, en vilja ekki láta snerta á milljarðasparnaði í velferðar- og verndarkerfi í atvinnulífinu.
Það er dæmigert fyrir okkur, sem höfum ekki efni á núverandi úthaldi í heilbrigðisstofnunum, elli- og örorkupeningum, svo og í skólahaldi, að við höfum efni á að vernda fortíðina í atvinnumálum og stuðla að sundrungu í alþjóðaviðskiptum, sem skaðar fiskútflutning.
Ef stjórnvöld taka þátt í að bregða fæti fyrir lokatilraun GATT-forstjórans, haga þau sér samkvæmt þjóðarvilja, sem vill sjálfspyndingu, en ekki langtímagróða.
Jónas Kristjánsson
DV