Sjálfstæðisflokkurinn á 58% spillingarinnar

Punktar

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN er capo spillingar í mannaráðningum hér á landi, ekki Framsóknarflokkurinn. Samkvæmt úttekt DV í gær eru 58 af 100 kvígildum flokkanna sjálfstæðismenn og aðeins 23 framsóknarmenn. Heilir 19 voru samfylkingarmenn eða úr forveraflokkum hennar. DV birti myndir af öllum 100.

MIKILL MEIRIHLUTI allra ráðninga fólks í opinber embætti er spilltur. Flokkarnir líta á aðstöðu sína í ríkisstjórn og borgarstjórn sem herfang. Framsóknarflokkurinn er svo frægur af þessu, að hann hefur verið kallaður Vinnumiðlun, en sú nafngift á raunar betur við Sjálfstæðisflokkinn.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN fjölyrðir flokka mest um, að ríkisrekstur sé ekki eins hagkvæmur og einkarekstur, en á sjálfur mesta sök á að velja óhæfa menn, sem gera ríkisrekstur ónýtan. Flokkurinn er meira að segja að gera sjálfan Hæstarétt að griðastað fyrir undirmálsmenn.

ENN MERKILEGRA ER, að fjöldi kjósenda styður þessa spillingu flokkanna með atkvæði sínu. Fólk er sátt við, að atkvæði sitt sé notað til að setja flokksjálka í embætti, sem betur hæfa fagmanni. Næst verður Sturla Böðvarsson gerður að vegamálastjóra, þótt þar hafi áður verið röð verkfræðinga.

MANNARÁÐNINGAR eru annar svartasti bletturinn á íslenzkri pólitík. Hinn svarti bletturinn er, að sumir flokkar, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, neita að veita nokkra innsýn í fjármál sín og í stuðning fjársterkra fyrirtækja. Gegnsæi er eitur í beinum flokks allra stétta.

KÓNGUR ÍSLENZKRAR spillingar er fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sem lét skipa algerlega óhæfan frænda sinn í Hæstarétt og skipaði að lokum sjálfan sig í embætti seðlabankastjóra, svo að hann þyrfti ekki að lifa af heillar milljón króna eftirlaunum, sem hann hafði áður útvegað sér.

jonas@dv.is

DV