Sjálfstraust og töfratrú

Greinar

Sameiningartákn ríkisstjórnarinnar er skortur ráðherra á sjálfsgagnrýni. Þeir koma fram fyrir alþjóð eins og ekkert sé, þótt þeir ættu réttilega að vera í felum fyrir meðferð á hagsmunum þjóðarinnar, sem er ömurlegri en þjóðin hefur átt að venjast í tíð fyrri stjórna.

Þegar ráðherrar koma í sjónvarpinu inn á heimili fólks, eru þeir sjálfsöryggið uppmálað. Þeir tala eins og þeir þekki málin, sem þeir fjalla um. Þeir tala eins og þeir hafi ráð undir rifi hverju. Þeir tala eins og þeir séu einmitt réttu mennirnir til setu í ráðherrastólum.

Þetta lærist smám saman. Nú á tímum hljóta menn æfingu í ræðukeppni, þar sem skólanemar eru látnir tala í nokkrar mínútur með eða móti landbúnaði, allt eftir því hvorn hlutinn þeir draga. Áður lærðu verðandi stjórnmálamenn þetta á málfundum í menntaskólum.

Smám saman verður stjórnmálamönnum eiginlegt að þenja út brjóstkassann og tala af miklum alvöruþunga með eða móti einhverju máli, rétt eins og þeir hafi kynnt sér það eða hafi á því einhverja skoðun. Smám saman trúa þeir því sjálfir, að þeir séu klárir.

Stundum koma þeir upp um sig, eins og fyrrverandi ráðherrann, sem tók ofan gleraugun, þegar hann þurfti að fara með óvenjurangt mál. Aðrir taka sérstaklega fram, að þeir “segi ekki sannara orð”, þegar þeir skreyta mest. Með aukinni reynslu venja þeir sig af slíku.

Þetta sameiningartákn ríkisstjórnarinnar væri aðeins böl ráðherranna, ef kjósendur í stofum sínum áttuðu sig almennt á innihaldsleysi þess, sem ráðherrarnir í kassanum eru að segja. En því miður freistast margir til að halda, að allt sé nokkurn veginn með felldu.

Þetta tengist veikleika, sem er algengur meðal Íslendinga og er raunar vel þekktur víða um heim. Það er trúin á happdrættisvinninginn, vonin um að fá eitthvað fyrir ekki neitt. Það er íslenzki draumurinn að geta “skafið” sig út úr fjárhagsvandræðum sínum.

Þetta þýðir, að meðal okkar er útbreidd trú á furðulausnir. Menn reyndu á sínum tíma unnvörpum að verða ríkir á keðjubréfum. Menn taka þátt í hverju happdrættiskerfinu á fætur öðru, jafnvel þótt vinningshlutfallið lækki með hverju kerfi, sem bætist við.

Margir trúa orðum stjórnmálamanna um, að hitt eða þetta muni leysa allan vanda. Einu sinni áttu gras kögglaver að leysa vanda landbúnaðarins. Þær voru reistar af opinberu fé um allt land og fóru síðan á hausinn. Hið sama gerist nú með fóðurstöðvar loðdýranna.

Margir hafa verið reiðubúnir að taka trú á eitthvert eitt mál, til dæmis á fiskirækt. Í hvert skipti sem slíkt mál kemst í tízku, flykkjast menn unnvörpum í greinina til þess að láta þekkingarleysi sitt og peningaleysi verða að víðtæku gjaldþroti, sem snertir ótal aðila.

Fólk, sem gengur svo langt að nota happdrættisvinninga, sem það býst við að fá, er auðvitað veikt fyrir töfralausnum stjórnmálamanna. Þetta veldur vandræðum víða um heim, til dæmis í Argentínu. Við erum ekki einir um að eiga erfitt með að horfa á veruleikann.

Þetta stuðlar að því, að fólk kippir sér ekki upp við, þótt ráðherra komi annan daginn í sjónvarp til að segja, að ekki verði tekin erlend lán á þessu ári, og hinn daginn til að segja, að hækkun erlendra lána um nærri tíu milljarða króna á þremur mánuðum muni kosta fórnir.

Viðbrögð töfratrúaðra við sjónhverfingum ráðherra magna sjálfstraust hinna síðarnefndu og magna vítahring ímyndunarinnar um, að eitthvað fáist fyrir ekkert.

Jónas Kristjánsson

DV