Sjálfum sér verstur.

Greinar

Erfitt er hlutskipti DV og annarra, sem segja sjávarútveginn beittan misrétti með rangri skráningu gengis krónunnar. Ekki er mikið hlustað á slíkt, þegar daglega birtast fréttir af stórfelldum bjánaskap þeirra, sem stjórna ferðinni í þessari atvinnugrein.

Sjávarútvegurinn hefur fengið slæma auglýsingu í þorskaflahrotunni að undanförnu. Allt of mikill fiskur berst að landi á allt of skömmum tíma. Hann verður mun verðminni söluvara í útlöndum en eðlilegt væri. Sumt er svo slæmt, að fleygja verður í gúanó.

Á þessum tíma er fiskurinn feitur af átu og afar viðkvæmur. Honum er mokað upp í allt að 40 tonna hölum. Aflinn á skip getur numið 80 tonnum á sólarhring. Ekki er rúm eða tími til að þvo fiskinn vel, kassa hann og ísa nægilega. Túrinn er ekki styttur vegna þessa.

Þorskurinn er byrjaður að skemmast, áður en hann er kominn inn í frystihús. Þar bíður hann blóðsprunginn í of miklum hita. Mikið af hinu vana starfsliði er í fríi. Fámennt lið lítt þjálfaðra og hægvirkra unglinga ræður auðvitað ekki við að bjarga fiskinum.

Þar á ofan er tækni frumstæð í mörgum frystihúsum. Færibönd eru af skornum skammti. Gífurleg vinna fer í alls kyns tilfæringar með kassa. Gamaldags reizlur eru, þar sem tölvuvogir ættu að vera. Við venjulegar aðstæður er framleiðnin á lágu stigi. Enn lakari er hún nú.

Niðurstaðan er, að þorskurinn fer ekki í verðmætu pakkana, sem hinn erlendi markaður biður um. Hann fer í stærri blokkir og roðfisk. Sumt fer hreinlega í bræðslu. Útflutningsverðmætið verður að meðaltali 20-30% lægra á hvert kíló en það ætti að vera.

Í mörgum tilvikum er það sami aðilinn, sem á fiskiskipið og vinnslustöðina. Fyrir slíkan ætti að vera viðráðanlegt að samræma veiðar og vinnslu. Það hefur raunar sums staðar verið gert um langt skeið, til dæmis hjá fyrirmyndarfyrirtækinu Útgerðarfélagi Akureyringa.

Sumir eru nýbyrjaðir að sigla í kjölfarið. Aðrir forstjórar í sjávarútvegi klóra sér í höfðinu og virðast alls ekki ráða við skipstjóra og sjómenn, sem tryllast í aflahrotunni. Slíkt ráðaleysi er að sjálfsögðu forkastanlegt og kallar á mannaskipti á toppnum.

Bjánaskapurinn styðst við hálfopinbert verðlagskerfi, sem gerir of lítinn mun á góðum og lélegum afla upp úr sjó. Skipstjórar og sjómenn hafa því lítinn aga úr þeirri átt. Þeir bara moka í gúanó, nema útgerðarstjórar komi sjálfir á aga eins og Akureyringar.

Í erlendum fiskihöfnum ríkir ekki opinbert verð, heldur markaðsverð. Þar fylgjast útgerðarstjórar nákvæmlega með eftirspurninni og keppast um að kalla skip sín inn, eirmitt þegar kaupendur vantar fisk og verðið er hagstæðast. þetta þarf að taka upp hér.

Meðan svo er ekki, þurfa ráðamenn í sjávarútvegi að gera sitt bezta á annan hátt. Þeir hafa enga afsökun fyrir því að klóra sér í höfðinu og horfa upp á kvóta skipa sinna sóað í framleiðslu, sem er 20-30% verðminni en hún ætti að vera, ef rétt væri haldið á spilum.

Þetta er sorglegt, því að sjávarútvegurinn er okkar stóriðja og á skilið hagstæðari gengisskráningu. En það þýðir lítið fyrir okkur á DV og aðra að hamra á slíku, meðan ráðamenn í sjávarútvegi haga sér eins og bjánar. Því miður er sjávarútvegurinn sjálfum sér verstur.

Jónas Kristjánsson.

DV