Sjálfur þjóðaróvinurinn

Greinar

Uppákoma helgarinnar við verðlagningu búvöru sýnir enn einu sinni, að útilokað er að reka skynsamlega efnahagsstefnu fyrir þetta land, meðan hinn hefðbundni landbúnaður kúa og kinda ríður húsum og krefst sífellt meira framlags og stuðnings almennings.

Ríkisvaldið getur í rauninni ekki átt aðild að skynsamlegum kjarasamningum milli launafólks og atvinnurekenda, af því að í kjölfar þeirra fylgja frá hinum hefðbundna landbúnaði bakreikningar, sem kollvarpa niðurstöðum þessara sömu kjarasamninga.

Svokölluð sexmannanefnd hefur reiknað út, að lögum samkvæmt beri bændum í dag 20% kauphækkun til að halda í við þær stéttir á mölinni, sem kjör bænda eru miðuð við. Þetta hefði leitt til um það bil 10% meðalhækkunar í dag á verði dilkakjöts og mjólkurafurða.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra sögðu, sem satt var, að allt færi í loft upp á vinnumarkaði, ef verðbólguskriðu yrði hleypt af stað með þessum hætti. Fjármálaráðherra bætti því við, sem satt var, að ekki væru til skattapeningar til að greiða þetta niður.

Forsætisráðherra bað því sex manna nefnd um að fresta hækkuninni. Eftir makk um helgina náðist samkomulag um 10% launahækkun bænda og 5% verðhækkun dilkakjöts og mjólkurafurða til bráðabirgða í hálfan mánuð, meðan málið væri skoðað nánar.

Athyglisvert er, að upprunalega hækkunin hefði runnið sjálfkrafa í gegnum hið sjálfvirka mjólkunarkerfi, sem hinn hefðbundni landbúnaður hefur á ríkissjóði, ef Alþýðusambandið hefði ekki bent á, að með nýja verðinu væri verið að eyðileggja síðustu samninga.

Dæmigert fyrir frekju stjórnenda hins hefðbundna landbúnaðar er, að þeir kvörtuðu sáran í sjónvarpsviðtölum um helgina út af því, að Alþýðusambandið skyldi vera að skipta sér af málinu, áður en niðurstaða um verðlagningu var fengin í sex manna nefndinni.

Einnig er athyglisvert, að ráðamenn Alþýðusambandsins skuli vera farnir að átta sig á, að þeir eru alltaf að gera marklausa kjarasamninga við ráðamenn vinnuveitenda, af því að ráðamenn landbúnaðarins sigla í kjölfarið og kollvarpa forsendum kjarasamninganna.

Heljartök hins hefðbundna landbúnaðar á ríkissjóði og skattgreiðendum hafa farið vaxandi á síðustu árum. Jón Helgason búnaðarráðherra gortaði nýlega af því í blaðaviðtali, “að með búvörulögunum hefur landbúnaðurinn fengið meira fjármagn en með gömlu lögunum”.

Hinn hefðbundni landbúnaður hefur í valdatíð Framsóknarflokkanna tveggja í ríkisstjórninni náð samningum við ríkið um búmark og fullvirðisrétt, sem skylda ríkið til að kaupa ákveðið magn af kjöti og mjólkurvörum, langt umfram það, sem markaður er fyrir í landinu.

Samkvæmt gamalgrónum lögum á að vera jafnræði í kjörum bænda og nokkurra viðmiðunarstétta á mölinni. Vegna þess hækka mjólkurvörur og dilkakjöt nokkurn veginn sjálfkrafa í verði, svo sem verða átti um helgina. Þetta veldur því, að þær seljast verr.

Ríkið hefur hins vegar ábyrgzt sölu á þessum afurðum. Það getur reynt að koma þeim út innanlands með auknum niðurgreiðslum eða gefa þær til útlanda með auknum útflutningsuppbótum. Þetta er vítahringur, sem ríkissjóður og skattgreiðendur hafa ekki ráð á.

Hinn hefðbundni landbúnaður er óvinur þjóðarinnar númer eitt, tvö og þrjú. Það er fyrst og fremst hann, sem skerðir þjóðarauð og heldur niðri lífskjörum.

Jónas Kristjánsson

DV