Fátt er minnisstætt frá Sjanghæ, sem að útliti og innihaldi er eins og þúsundir annarra austrænna staða á Vesturlöndum, hvorki lakari né betri. Til dæmis voru djúpsteiktur rækjur hveitiþykkar og álíka ólystugar og á Asíu neðar við Laugaveginn. Ánægjulegast man ég eftir efnismiklum pappírsþurrkum og heitum dúkum, sem gestir fá eftir matinn.
Matreiðslan í Sjanghæ er austur-indísk fremur en kínversk, ættuð frá Indónesíu eða Vietnam, með þykkum sósum, þótt hún jóðli ekki beinlínis í þeim eins og á áðurnefndri Asíu og sé ekki heldur í hreinum pottréttastíl eins og á Bing Dao á Akureyri, botni tilverunnar. En hún er snöggtum lakari en kínverska matreiðslan þurra og ekta í Kínahúsinu við Lækjargötu, sem þar að auki er mun ódýrari staður.
Sjanghæ er innréttað í ferðamannastíl, mikið hólfað niður með reitagrindverki, skreytt upp á kínversku með reitalofti, rauðu teppi, Kínalugtum, blævængjum og kínverskum styttum í glerskápum. Þjónustan er sumpart góð og sumpart fáfróð, en jafnan elskuleg.
890 króna hádegishlaðborð bjó yfir smáum og þunnum vorrúllum ágætum, en var að öðru leyti ómerkilegt pottréttaborð með gríðarlega djúpsteiktum rækjum. Á kvöldin er boðið upp á margréttað fyrir 1980 krónur að meðaltali. Af seðli kostar þríréttað með kaffi um 3000 krónur.
Kjúklingur var yfirleitt frambærilegur. Svonefndur stökkur kjúklingur var fínlega djúpsteiktur með hnausþykkri sósu súrsætri til hliðar. Satay kjúklingur var tamarind-kryddaður í kókosmjólk. Gufusoðinn sapor kjúklingur, borinn fram í potti, var blandaður kasjú hnetum og sterkkrydduðu grænmeti.
Eggjadropasúpa var vel heit, þykk og matarleg. Skásti rétturinn var Gado Gado, steikt grænmeti, sem þó var með allt of mikilli hnetusósu, er minnti á kókosmjöl. Grænmeti með öðrum mat var yfirleitt staðlað og gott, brokkál, gulrót, laukur og sveppir, oftast blandað niðursoðnum ananas.
Gufusoðin sapor ýsa, borin fram í potti, var ekki nógu fersk. Pönnusteikt ýsa að hætti Malasíubúa var þurr af ofeldun, svo sem hættir til á austurlenzkum veitingahúsum hér á landi. Betri voru snöggsteiktar lambakjötsþynnur með hvítlauk. Ennfremur piparkryddaðar toban-svínakjötsþynnur, bornar fram í pönnunni.
Blandaðir ávextir fólu í sér mikið úrval austur-asískra ávaxta úr dósum, með ís og rjóma. Bezti eftirrétturinn var wan tan, djúpsteikt hveitiumslög utan um döðlur, borin fram með þeyttum rjóma. Kaffi var nothæft.
Jónas Kristjánsson
DV