Sjanghai við Laugaveg hefur farið fram í þjónustu, en matreiðsla staðarins hefur dalað, einkum í hádeginu. Það kom meðal annars fram í djúpsteiktum rækjum með öldrunarlykt. Rækjan var að vísu meinlaus og ekki ólík því, sem matargestir þurfa að sæta í fiskréttahúsum sums staðar erlendis, en er sem betur fer nokkurn veginn óþekkt fyrirbæri hér í landi frábærlega fersks hráefnis.
Mér sýnist Sjanghai vera orðin skrautlegri og þrengri en áður. Kínverskar lugtir hanga í gylltu reitalofti og svört skilrúm hólfa staðinn niður í smærri einingar. Til viðbótar við gyllt og svart er svo rautt í dúkum undir glerplötum borðanna. Kínversk tréskurðarverk, blævængir og önnur austræn list skreytir veggina. Útibú í svipuðum ferðamannastíl er uppi á næstu hæð.
Þótt þetta sé nokkuð ferðamannalegur staður, er hann mest sóttur af Íslendingum, sem láta sig matreiðsluna litlu varða og sækja mest í slappt hádegishlaðborð, þar sem grænmetissúpa og sex réttir kosta aðeins 790 krónur.
Súpan var tær og sölt, afar bragðsterk. Djúpsteiktur fiskur var í miklum hjúp og óvenjulega seigur. Sama mátti segja um djúpsteiktu rækjuna. Sætsúrir kjúklingar voru hins vegar ágætir, bezti hluti hlaðborðsins. Svínakjöt í Sechuan-sósu var bragðsterkt og sæmilegt, og nautakjöt í grænmeti var nokkru betra. Mildur grænmetisréttur var sæmilegur. Hlaðborðinu fylgdu tvær sósur, súrsæt og Sechuan, svo og stökkt Poppadum-brauð.
Í annað skipti var grænmetissúpa dagsins fremur dauf; og rækjur í sætsúrri sósu eins og sagt var frá í greinarbyrjun. Súpa og val milli tíu stakra hádegisrétta kosta um 500 krónur, sem væri mjög gott, ef matur væri betri.
Á kvöldin hefur Sjanghai reynzt mér mun betur, enda er verðið þá nokkru hærra. Þá eru boðnar ýmsar syrpur fyrir þrjá eða fleiri á 1.990-2.750 krónur á mann, svo og Kanton-kvöldverður fyrir tvo á 1.290 krónur á mann. Á kvöldin fá gestir volga dúka eftir mat að austrænum sið og þá eru pappírspurrkurnar ágætlega þykkar.
Í síðastnefndu syrpunni var krabbasúpa, rækjur, kjúklingabitar, svínarif, nautakjöt, óvæntur réttur og eftirréttur. Súpan var tær og góð, vel heit, með eggjarauðuþráðum, baunum og maís. Rækjurnar voru með þykkum hjúp. Kjúklingabitarnir voru nokkuð góðir. Nautakjötsstrimlar voru góðir, með sterkri sósu og pönnusteiktu grænmeti. Það óvænta reyndist vera meyr harpa í súrsætri sósu, borin fram með stökkum þráðum. Svínarifin vantaði. Eftirrétturinn var ís með ananas og ávaxtahlaupi.
Ein syrpan fyrir fjóra gesti fól í sér tæra og góða villisveppasúpu með svartsveppum og fiskbitum; mjög góða smálúðu pönnusteikta með grænni og rauðri papriku; meyra hörpu með afar sterkri Satay-hnetusósu; afar smáan, en frambærilegan humar með kúlusveppum; sætsúra kjúklingabita nokkuð góða; ekki merkilegt nautakjöt í sterkri Hui Kuo sósu; steikt svínakjöt með blaðlauk; og mikið af deigi utan um djúpsteiktan banana.
Humar og kjúklingabitar komu í stað rækju og svínarifja, sem áttu samkvæmt matseðli að vera í syrpunni.
Eitt einkenna staðarins er, að hrísgrjón eru ekki hnöttótt og austræn, heldur löng og mjó að vestrænum smekk. Prjónar eru fáanlegir, en þeim er ekki haldið að gestum.
Jónas Kristjánsson
DV