Í hrásalati matreiðslumannsins fékk ég hörpudisk, sem konan á næsta borði fékk ekki. Ég fékk fulla skál af konfekti með kaffinu, en enginn annar matargesta. Mannamunur er fremur gróf og vonlítil aðferð við að svindla á prófi, enda gat hún ekki dulið tilfinningasnauða matargerð í eldhúsi Sjö Rósa á Grand Hóteli Reykjavík.
Svokölluð tortilla-skál var óraveg frá réttnefni, reyndist vera úr smjördeigi, með fallegu salati og þremur stórum rækjum í of miklum djúpsteikingarhjúpi. Súpa Bonne Femme var mestmegnis rjómi, á samkvæmt formúlunni að búa yfir kartöflum og blaðlauk, en reyndist fela í sér skinku, kjúklingabita og sveppi.
Betra var salat matreiðslumannsins, fallega grænt, en þó með of gömlu jöklasalati og síðan hörpudiski fyrir útvalda. Bezti forrétturinn var reyktur lax í fínlegum smjördeigsvöfflum og viðeigandi graslaukssósu, en ekki fannst kavíarinn, sem átti samkvæmt matseðli að fylgja.
Fiskur var ekki sterka hliðin á eldhúsi Sjö Rósa. Ofsoðinn barri í eigin soði var of þurr. Gufusoðinn steinbítur var einnig ofeldaður og þurr, enda liðu 45 mínútur frá því að hann var pantaður og þangað til hann kom á borð, borinn fram með mauksoðinni kartöflu, kryddlegnu salati í turnformi og grænmetisfroðu, sem var það eina góða við réttinn. Ofnbakaður saltfiskur var hins vegar ágætur, vel útvatnaður, borinn fram með tómatblönduðu grænmetismauki, ekta ratatouille.
Kjúklingarúllur voru þurrar, fylltar paprikumauki, með steiktum grænmetisþráðum, fallega útskorinni kartöflu, hæfilega steiktum sveppum og sítrónusósu með skán. Lambalundir voru lítillega ofgrillaðar og ekki farnar að þorna mikið, með þungri hveitisósu, bakaðri kartöflu og sólþurrkuðum tómötum.
Svokölluð Pina Colada terta reyndist vera ískarfa með þremur tegundum af ís, öllum eins á bragðið. Mjúkir súkkulaðidropar reyndust vera eins konar búðingur með mangósósu. Leynivopn matsveinsins í eftirréttum reyndust vera tveir búðingar í smábitum á diski. Kaffi var úr sjálfvirkri hnappavél.
Sjö Rósir eru í anddyri Grand Hótels Reykjavík, stúkuð af með lausum og lágum skilrúmum, svo og fölsku lofti með jöðrum salarins. Þyngdarpunktur staðarins er arinn, sem hangir úr loftinu og brennir afgöngum úr öskubökkum, sem gefa gamalkunna lykt. Parkett er á gólfi, hvítir dúkar og ekta blóm á borðum, snotur borðbúnaður og blá vatnsglös, sem virðast í tízku á veitingastöðum. Bólstraðir armstólar eru furðanlega lítið þægilegir. Þjónustan er skólagengin og kann sitt fag.
Stuttur matseðill með vali tveggja rétta kostar 1420 krónur í hádeginu og með vali þriggja rétta 2980 krónur á kvöldin. Af fastaseðli kostar þríréttað með kaffi 3400 krónur. Staðurinn virtist einkum sóttur af hótelgestum á kvöldin og í hádeginu af fólki, sem sækir fundi eða ráðstefnur. Fólk kemur ekki utan úr bæ til að borða hér og það er rétt hjá því.
Jónas Kristjánsson
DV