Sjónarspil í stjórnsýslu

Greinar

Niðurstaðan er alltaf eins, hvort sem fyrirbærið heitir “lögfræðingar ráðuneytisins”, “nefnd embættismanna” eða “starfshópur óháðra sérfræðinga” úti í bæ. Engu máli skiptir, hvort dómstólar telji síðar niðurstöðuna hafa verið rétta eða ranga eða hver var starfsheiður nefndarmanna.

Ekki skiptir heldur máli, hvort nefnd embættismanna sendir leynilegt minnisblað til starfshóps, þar sem sömu embættismenn starfa með óháðum sérfræðingum úti í bæ. Engra dæma verður minnzt um, að einhvers staðar í sjónarspilinu hafi verið vikið frá fyrirfram vitaðri niðurstöðu.

Fyrirbærið kemst ekki bara oftast, heldur ævinlega að þeirri niðurstöðu, að rétt sé eða hafi verið að gera eins og ráðherra vill. Slíkt getur samkvæmt líkindareikningi stærðfræðinnar ekki verið tilviljun. Fyrirbærið starfar eins og málflutningsmaður, sem tekur að sér að verja sakborning.

Skipun fyrirbæra af þessu tagi er ein elzta aðferðin í stjórnsýslu íslenzka ríkisins við að draga athyglina frá ráðherranum og reyna að gefa í skyn, að einhvers konar æðri máttur eða hlutlaus dómstóll hafi efnislega rannsakað áform eða gerðir ráðherrans og gefið þeim gæðastimpil.

Sjónarspilið getur orðið kyndugt, þegar nefndarmenn fyrri nefndar senda eins konar erindisbréf eða fyrirmæli til sjálfra sín í síðari nefnd sama ferils, þar sem nefndarmenn lesa bara alls ekki erindisbréf eða fyrirmæli, að því er upplýst hefur verið í fjölmiðlum í kjölfar birtingar slíks bréfs.

Málið snýst ekki um, hvort málflutningsmenn ríkisvaldsins hafa meiri eða minni starfsheiður en aðrir málflutningsmenn í þjóðfélaginu. Það snýst um ákveðnar tegundir stjórnsýslu, sem tíðkast fremur hér á landi en í nágrannalöndunum, þar sem stjórnsýsla er í traustari skorðum.

Hér sætta stjórnvöld sig ekki við að tapa málum fyrir dómstólum. Ráðuneytisstjórar koma saman í kyrrþey og búa til minnisblöð, þar sem úrskurðað er, að Hæstiréttur hafi rangt fyrir sér, og gefa úrskurð sinn í formi leynilegs erindisbréfs til sjálfra sín og nokkurra annarra valinkunnra sæmdarmenna með starfsheiður á afar háu stigi.

Þegar Hæstiréttur hefur neytt forsætisráðherra til að opinbera erindisbréfið og sjónarspilið er þannig komið í ljós, er það niðurstaða forsætisráðherra, að of mikið sé framleitt af hættulegum plöggum í ráðuneytum og því sé tímabært að hætta að birta dagskrá ríkisstjórnarfunda.

Áður hefur forsætisráðherra sagt, að hann sé farinn að sjá eftir að hafa stuðlað að setningu núgildandi upplýsingalaga, sem dómur Hæstaréttar byggist á. Lögin hafa raunar valdið stjórnvöldum óþægindum á mörgum sviðum, því að fjölmiðlar eru farnir að beita þeim fyrir sig.

Nýju upplýsingalögin eru samin að norrænni fyrirmynd og ganga fráleitt lengra en fyrirmyndirnar. Þau ganga raunar mun skemmra en hliðstæð lög í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna. Þau eiga því ekki að þurfa að fela í sér nein óbærileg óþægindi fyrir ráðherra og embættismenn.

Slík lög hafa verið sett í nágrannalöndunum, af því að þar hafa menn uppgötvað, að stjórnsýsla þurfi að vera gegnsæ, svo að almenningur geti fylgzt með ferli mikilvægra ákvarðana og valdamenn verði ábyrgari gerða sinna. Þetta er talinn vera nauðsynlegur þáttur lýðræðis.

Hér er stjórnsýsla hins vegar skemmra á veg komin, ráðamenn láta upplýsingalög pirra sig og skipa “óháð” fyrirbæri til að grugga vatnið.

Jónas Kristjánsson

FB