Sjónhverfing

Greinar

Bosníufriðurinn í Genf er gervifriður, sem hefur sama markmið og tugir fyrri samninga á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópusamfélagsins um vopnahlé í Bosníu. Hann á að koma á framfæri þeirri ímynd, að stofnanirnar séu að gera eitthvað að gagni í Bosníustríðinu.

Alkunnugt er, að tugir samninga um vopnahlé í Bosníu hafa farið út um þúfur, jafnvel þótt þeir hafi fjallað um hlé, sem er einfaldara mál en skipting landsins í tíu sjálfstæðar sýslur með afar flóknum landamærum og jafnvel klofning einnar sýslu í tvo aðskilda hluta.

Samningurinn gerir ráð fyrir, að árásarþjóðin haldi stórum svæðum, sem hún hefur komizt yfir með morðum, nauðgunum og annarri þjóðahreinsun. Þar með er blóð Bosníu fyrir tilverknað sáttasemjaranna komið á hendur Sameinuðu þjóðunum og Evrópusamfélaginu.

Samningurinn gerir ekki ráð fyrir neinni siðrænni afgreiðslu á endalausum stríðsglæpum Serba í Bosníu. Þar með hafa þeir Cyrus Vance og David Owen látið Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusamfélagið taka ábyrgð á þessum glæpum, sem eru fleinn í vestrænni menningu.

Búast má við, að hundruð af stríðsglæpamönnum Serba verði kosin á þing í ýmsum af hinum sjálfstæðu sýslum Bosníu. Þar munu þeir sitja við hlið ættingja fórnarlambanna. Augljóst er, að sá gervifriður mun ekki lengi haldast, jafnvel þótt hann nái svo langt.

Eftir undirritunina í Genf er unnt að teygja lopann í langan tíma. Þing stríðsglæpamanna Serba í Bosníu á eftir að staðfesta hann og eftir er að semja um tæknileg atriði í skiptingu landsins í tíu smáríki. Á meðan fá Serbar að vera í friði fyrir vestrænum flugherjum.

Kröfur almenningsálitsins á Vesturlöndum um hernaðarlega íhlutun í Bosníu og Serbíu voru orðnar óbærilegar fyrir ráðamenn voldugustu ríkjanna. Með því að framleiða ráðstefnur og sáttafundi telja þeir sig geta frestað aðgerðum, sem lengi hafa verið óhjákvæmilegar.

Sameinuðu þjóðirnar og voldugustu ríki Vesturlanda eru í svipaðri súpu fyrir botni Persaflóa. Þar færði Saddam Hussein eldflaugar sínar í árásarstöðu, gerði daglega herleiðangra inn í Kúveit til að sækja sér vopnabúnað og hafði bandamenn hvað eftir annað að fíflum.

Saddam hefur greinilega talið af atferli Vesturlanda í Serbastríðinu, að bandamenn mundu ekki standa við hótanir um lofthernað. Enda færðist hann allur í aukana, þegar bandamenn reyndu að halda fram, að hann hafi verið byrjaður að færa eldflaugar sínar til baka, þegar út rann frestur, sem hann hafði til þess.

Ráðamenn Bandaríkja, Bretlands og Frakklands hafna hernaði gegn Írak og Serbíu og nota undanbrögð, rangfærslur, ráðstefnur og samningafundi til að breiða yfir það. Árásin á skotpalla Íraks í gær fól í sér óbeina játningu þess, að undanlátsstefna egnir óbilgjarna.

Fram til gærdagsins höfðu leiðtogar Vesturlanda óafvitandi verið að senda þau skilaboð til sporgöngumanna Serba, að Vesturlönd hafi ekki lengur siðferðilegan eða efnahagslegan styrk til að standa við stóru orðin og að óhætt sé að láta til skarar skríða í landvinningum.

Stefnan að baki gervisamningi Sameinuðu þjóðanna og Evrópusamfélagsins um Bosníu felst í að reyna að láta sjónhverfingu koma í stað raunveruleika til að sefa og svæfa heilbrigt almenningsálit heima fyrir í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi.

Þessi stefna á eftir að verða Vesturlöndum dýr, alveg eins og stefna Neville Chamberlain reyndist Vesturlöndum dýr í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV