Sjónhverfinga-stjórnin

Greinar

Síðan formaður Sjálfstæðisflokksins varð fjármálaráðherra hefur ríkisbúinu verið stjórnað með sjónhverfingum. Það hefur líkað vel í ríkisstjórninni. Hún samþykkti fyrir helgina að fara eftir vinnubrögðum ráðherrans og reyna að halda áfram að gabba þjóðina.

Fyrst hækkaði fjármálaráðherra skatta þessa árs og sagðist hafa lækkað þá. Næst jók hann með fjárlagafrumvarpi hallann á ríkisbúskap næsta árs og sagðist hafa minnkað hann. Og nú síðast hækkaði hann gamla raunvexti og sagðist hafa lækkað raunvextina.

Síðasta sjónhverfingin verður vinsælli en hinar fyrri. Vel lætur í eyrum, að raunvextir lækki úr 8% í 6,5%, því að margir hafa undanfarin misseri stunið undir því, sem þeir kalla vaxtaokur. Auk þess vilja menn, að ríkið gangi jafnan á undan með góðu fordæmi.

Í rauninni er ríkið þegar búið að taka meiri lán með 8­9% raunvöxtum á innlendum markaði en ráð var fyrir gert. Bragð ráðherra felst í að hætta að taka slík lán til áramóta, en bjóða nýja 6,5% raunvexti þeim, sem eiga innlausnarhæf eldri lán með um 4% raunvöxtum.

Ráðgert hafði verið, að sala ríkisskuldabréfa umfram innlausn næmi 380 milljónum króna í ár. Hún er þegar komin í 600 milljónir. Til þess að ná þeirri sjónhverfingu, að raunvextir ríkisins séu ekki lengur 8%, heldur 6,5%, er bara hætt að selja slík bréf í rétta fjóra mánuði.

Og nú er komið að stóra vinningnum, þegnskyldukaupum lífeyrissjóða á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar. Nú fá þeir ekki 8% raunvexti, heldur 6,5%, af því að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafa á Þingvöllum lækkað raunvexti ­ með handafli einu saman.

Hinir trúlausu gætu sagt, að í rauninni væri ráðherrann og ríkisstjórnin að hækka gamla raunvexti úr 4% í 6,5%, en ekki að lækka raunvexti. En eins líklegt er, að þjóðin hugsi eins og hinir skuldugu og fagni sjónhverfingunni sem djúpviturri fjármálastjórn.

Á Þingvallafundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku var áður búið að ákveða, að hallinn á fjárlagafrumvarpi næsta árs skyldi vera 2,2 milljarðar króna. Það er 2,3 milljörðum lakara en í fyrra, þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var lagt fram hallalaust.

Hins vegar eru ýmis bjargráð ríkisstjórnarinnar búin að koma kassanum á hvolf og halla ársins upp í 2,5 milljarða. Við þá tölu miðar ráðherrann, þegar hann segist vera að minnka hallann. Það er eins og við eigum að trúa, að engin bjargráð þurfi á næsta ári.

Fjárlagafrumvarp næsta árs á auðvitað að bera saman við fjárlagafrumvarp þessa árs, alveg eins og endanleg fjárlög næsta árs á að bera saman við fjárlög þessa árs og ríkisreikning næsta árs við ríkisreikning þessa árs. Samanburður í kross er bara sjónhverfing.

Tilraunir ráðherrans til að gabba þjóðina hófust fyrir alvöru í apríl síðastliðnum, þegar kom í ljós, að ríkið hafði ætlað sér um of í skattheimtu. Í stað þess að leiðrétta stefnuna, ákváðu ráðherra og ríkisstjórn að nota mismuninn sjálf og féfletta skattborgarana um leið.

Mismunurinn fór ekki í að greiða opinberum starfsmönnum laun, því að verðbólga launa skilar sér í verðbólgu skatta án þess að hún þurfi að kosta verðbólgu skattbyrðarinnar. Mismunurinn fór í hinn hefðbundna landbúnað og aðrar hliðstæðar hugsjónir.

Vel getur verið, að hinir trúgjörnu haldi, að fjármálaráðherra hafi lækkað skattana, minnkað ríkishallann og lækkað vextina. Ríkisstjórnin treystir því.

Jónas Kristjánsson

DV