Sjónhverfingar sameina

Greinar

Um helgina kom í ljós, að nýja stjórnarsamstarfið er traust. Ríkisstjórnin mun sitja langt fram eftir kjörtímabilinu. Hún mun ekki láta innri ágreining á sig fá, heldur leita sátta í allra ódýrustu lausnum. Það sýnir sjónhverfingameðferð hennar á fjárlagahallanum.

Um tíma leit svo út, að fjárlagasmíðin yrði ríkisstjórninni að fótakefli. Fjármálaráðherra lagði þunga og leikræna áherzlu á alvöru málsins og setti fram skynsamlegar hugmyndir um minnkun vandans. En síðan beygði hann sig fyrir svokallaðri pólitískri nauðsyn.

Í heimi stjórnmálanna þýðir ekki að tala mikið eða lengi um afnám niðurgreiðslna á forréttindavöxtum og landbúnaðarvörum. Þar hrista menn höfuðið yfir tillögum um hægari ferð í ljúfum málum á borð við sjúkrahús og skóla eða heilögum málum á borð við vegi og risnu.

Ríkisstjórnin hefur sætzt á að minnka hinn formlega fjárlagahalla niður í 1,2 milljarða króna, sem er 2% af fjárlögum. Það væri ágætis árangur, ef hann hefði einkum náðst eftir öðrum leiðum en sjónhverfingum. Og hann segir ekki alla söguna um hallarekstur ríkisins.

Tölurnar, sem sífellt hefur verið fjallað um, ná eingöngu yfir A-hluta fjárlaga. Þær fela hvorki í sér B-hlutann, þar sem ríkisfyrirtækin eru, né C-hlutann eða lánsfjárlögin, þar sem hallarekstur ríkisins og fyrirtækja þess hefur yfirleitt verið og er enn falinn.

Opinber umfjöllun fjármálaráðherra og ríkisstjórnar ber ekki með sér neinn skilning á samhengi lánamarkaðarins í heild. Í ríkisstjórninni er rætt um að miðstýra leigukaupum í þjóðfélaginu út af fyrir sig, án þess að fjallað sé um þau sem þátt í almennu lánahungri.

Ríkisvaldið og aðrir aðilar keppast um að komast yfir lánsfé. Ríkið ber sjálft fulla ábyrgð á sínum hluta þess kapphlaups. Þegar aðrir aðilar nota erlenda peninga í leigukaupum, eru þeir sumpart að víkja fyrir þrýstingi af fyrirferð ríkisins á innlendum lánamarkaði.

Ríkið ætti auðvitað að sjá lánahungrið í heild og stuðla að jafnvægi framboðs og eftirspurnar á peningum, í stað þess að einblína á eina afleiðingu þess, leigukaupin. Og auðvitað ætti ríkið á þenslutímum að vega á móti þenslu með því að draga úr eigin lántökum.

Dapurlegt er að horfa á fjármálaráðherra segja hæfilega vexti ríkisins til lífeyrissjóða vera 3-4% ­ á sama degi og hann sendir bréf til fólks, þar sem hann grátbiður það um að lána ríkinu fé á 8,5%. Þessi gífurlegi munur verður ekki skýrður með misjöfnum lánstíma.

Eini sjáanlegi niðurskurðurinn á ráðgerðum útgjöldum ríkisins á næsta ári er á niðurgreiðslum vaxta á húsnæðislánum, enda var áður búið að áætla þessi útgjöld upp úr öllu valdi. Eftir niðurskurðinn verða þessi útgjöld í rauninni meiri á næsta ári en þessu ári.

Dæmigert fyrir sjónhverfingar í niðurskurði fjárlagafrumvarpsins er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera 600 milljónir jafnt á línuna. Gömul og ný reynsla segir, að þetta felur ekki í sér neinn niðurskurð áþreifanlegra verkefna, heldur meiri vanáætlun útgjalda.

Grunsamlegt er, að ríkisstjórnin hefur skorið niður 800 milljónir með því að finna “skekkju” í fyrri útreikningum, þar af 200 milljónir í niðurgreiðslum landbúnaðarafurða og 600 milljónir í tekjuskatti. Tölvur ríkisins hafa líklega verið taugaveiklaðar eða timbraðar!

Meginatriði þessara reikniæfinga er, að þær fela ekki í sér niðurskurð ríkisútgjalda, heldur eru þær sjónhverfingar, sem ætlað er að sameina ríkisstjórnina.

Jónas Kristjánsson

DV