Skaðleg áform á þingi.

Greinar

Landbúnaðarflokkarnir tveir, sem mynda ríkisstjórn þessa lands, eru ekki samstíga í afstöðunni til lagafrumvarps um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins ýta málinu áfram, en nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins þæfast fyrir af megni.

Fyrirstaðan í þingliði framsóknarmanna byggist á efasemdum og athugasemdum, sem hafa komið fram hjá ráðamönnum vinnslustöðva landbúnaðarins og sumum bændum. Í þessum þingflokki eru jafnan margir, sem telja sjálfsagt, að hinn hefðbundni landbúnaður fái allt, sem hann vill.

Áhugasemi ráðamanna Sjálfstæðisflokksins byggist hins vegar ekki á næmu eyra fyrir hagsmunum neytenda. Þar í flokki er ekki hlustað á neytendur frekar en fyrri daginn. Samt hafa Neytendasamtökin harðlega gagnrýnt frumvarpið um Framleiðsluráð landbúnaðarins.

Mál þetta er undirbúið af nefnd framsóknarmanna úr báðum þessum stjórnmálaflokkum. Áður en það var lagt fyrir Alþingi, hlaut það umfjöllum í helztu valdastofnunum landhúnaðarins. Það var hins vegar ekki lagt fyrir samtök neytenda eða aðra mikilvæga málsaðila.

Undir eðlilegum kringumstæðum ætti að ríkja innileg ánægja með frumvarpið í þingliði Framsóknarflokksins, en efasemdir og óánægja í þingliði Sjálfstæðisflokksins. Að þessu skuli vera öfugt farið, sýnir, að erfitt er að sjá, hvor er meiri sauðfjár- og nautgripaflokkur.

Lítill tími hefur unnizt til að skoða frumvarpið. Það er bæði viðamikið og loðið. Ljóst er þó, að mörg ákvæði þess eru stórhættuleg og munu gera skipulag landbúnaðarins að þyngri byrði á herðum þjóðarinnar. Önnur ákvæði staðfesta ríkjandi ófremdarástand á þessu sviði.

Hættulegust eru áformin um að yfirfæra skipulagsbölvun hins hefðbundna landbúnaðar yfir á afurðir svína og fugla. Þjóðin ber of miklar byrðar af afurðum sauðfjár og nautgripa, þótt nýju sé ekki bætt við. Þetta er lúmskasta áformið að baki frumvarpinu.

Meginefni frumvarpsins fjallar um, að efnislega skuli allt vera eins og verið hefur. Áfram verði skipulögð framleiðsla illseljanlegra afurða, sem ýmist séu gefnar úr landi eða ýtt ofan í neytendur með tilfæringum á borð við niðurgreiðslur og kjarnfóðurskatt.

Ekki vottar fyrir því, sem þjóðin þarf mest á að halda í efnahagserfiðleikum sínum, að markvisst verði unnið að samdrætti fjárfestingar í hefðbundnum landbúnaði og hraðminnkun á framleiðslu afurða, sem verðlagðar eru langt yfir venjulegu heimsmarkaðsverði.

Sorglegt er, að neytendur og skattgreiðendur skuli ekki eiga neinn málsvara í þingliði stjórnarflokkanna. Ef þetta vonda mál stöðvast á Alþingi, verður það vegna þess, að nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins finnst það ekki í alveg nógu hefðbundnum stíl.

Hins vegar má segja, að sama sé, hvaðan gott kemur. Frumvarpið um Framleiðsluráð landbúnaðarins verður að stöðva, af því að það er vont frumvarp. Helzt væri, að það yrði stöðvað á réttum forsendum. En það er betra en ekki, að það verði stöðvað á röngum forsendum.

Eftir situr svo óbragðið af skeytingarleysi Sjálfstæðisflokksins í garð þess þorra þjóðarinnar, sem býr við sjávarsíðuna. Það gengur svo langt, að þjóðþrifamál eru látin velkjast vetrarlangt á þingi, meðan flokkurinn er að reyna að knýja vont mál í gegn á örfáum vikum.

Jónas Kristjánsson.

DV