Skaðleg afskiptasemi

Greinar

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur verið á ferðinni í Júgóslavíu til að veita sambandsstjórninni í Belgrað siðferðilegan stuðning og til að vara stjórnendur Króatíu og Slóveníu við að lýsa einhliða yfir sjálfstæði þessara ríkja, svo sem þær hafa verið að undirbúa.

Stuðningur Bandaríkjanna við sambandsstjórnina í Belgrað er hluti af mynztri, sem er öflugt í utanríkisstefnu Bandaríkjanna um þessar mundir. Hann minnir á stuðninginn við sambandstjórn Gorbatsjovs í Kreml gegn stjórnum einstakra ríkja í Sovétríkjunum.

Þetta lýsir sér einnig í, að forseti Bandaríkjanna lét í stríðslok við Persaflóa í vetur búa svo um hnútana, að Ba’ath flokkur Saddams Hussein Íraksforseta héldi áfram völdum í Írak til að hamla gegn því, að landið leystist upp í aðgreind ríki Kúrda, Sjíta og Súnníta.

Meginþráðurinn í þessari viðleitni Bandaríkjamanna er sannfæringin um, að sambandsríki séu af hinu góða, og sannfæringin um, að rof á sambandi muni leiða til staðbundins ófriðar, sem skaði hinn bandaríska frið, Pax Americana, sem ríkir í heiminum þessa dagana.

Hvort tveggja á sér rætur í sögu Bandaríkjanna. Þar sleit hluti ríkjanna sig úr lögum við sambandið og stofnaði nýtt. Það gátu hin ríkin ekki sætt sig við og efndu til blóðugrar borgarastyrjaldar, sem leiddi til þess, að brotthlaupsríkin voru innlimuð á nýjan leik.

Hinir sigruðu sættu sig að lokum við þessa niðurstöðu, svo að Bandaríkin eru núna ein og órjúfanleg heild. Í bandarískri skólasagnfræði, sem minnir á sagnfræði Jónasar frá Hriflu í skólum hér á landi, hefur alríkisstefnan orðið að meira en klisju, að trúaratriði.

Bandaríska reynslan er sér á parti. Annars staðar hafa slík mál farið á annan veg. Undirþjóðir og landfræðilegir minnihlutahópar, sem tala önnur tungumál og hafa önnur trúarbrögð en meginþjóðin, hafa yfirleitt ekki sætt sig við þvingaða aðild að sambandsríkjum.

Lykillinn er fólginn í, að Suðurríkjamenn tala í stórum dráttum sömu tungu og hafa í stórum svipuð trúarbrögð og Norðurríkjamenn. Þessari sérstöðu er ekki til að dreifa á þeim stöðum í heiminum, þar sem Bandaríkjastjórn óttast sundrungu af völdum undirþjóða.

Katalúnar, Valensar, Galísar og Baskar eru allir að varpa af sér spánska ríkismálinu og heimta meiri sjálfstjórn innan Spánar. Ríkisstjórn Spánar hefur áttað sig á kraftinum í þjóðrækni tungunnar og hefur gefið eftir í veigamiklum þáttum til að halda sameiginlegan frið.

Svo vel hefur ekki gengið annars staðar. Vallónum og Flæmingjum hefur ekki tekizt að sameinast í Belgíu. Norður-Írland er enn í hers höndum. Indland lafir saman naumlega. Kákasusfjöll eru orðin að vígvelli margvíslegra sérþjóða. Eþiópía liggur í rústum.

Meginreglan er, að hver þjóð vill vera út af fyrir sig í ríki með sitt tungumál, sína trú og siði. Ef takast á að hemja slíkar þjóðir í sambandsríki, þarf sambandsríkisstjórnin að skipta völdum með stjórnum þjóðríkjanna og veita margvíslegar eftirgjafir til að halda friði.

Af þessum ástæðum mun sendimönnum Bandaríkjanna mistakast að telja hugvarf Slóvenum og Króötum, Kúrdum og Sjítum, Lettum, Litháum og Eistlendingum. Og bandarísk afskiptasemi magnar viðkomandi sambandsstjórnir í andstöðu við sjálfstjórnarhreyfingar.

Sagnfræðileg sérstaða Bandaríkjanna leiðir þannig ekki til friðar í erlendum sambandsríkjum, heldur eykur fremur líkur á blóðbaði og alþjóðlegu öryggisleysi.

Jónas Kristjánsson

DV