Ríkisstjórnin hefði getað notað tækifæri hins árlega fjárlagafrumvarps til að marka þáttaskil í erfiðleikum þjóðarinnar. Hún hefði getað skorið niður þætti, sem eru þjóðinni gagnslausir eða skaðlegir. Hún hefði um leið getað eflt þætti, sem færa þjóðinni kjark og von.
Kreppan í þjóðfélaginu er ekki meiri en svo, að þetta hefði verið kleift, ef ríkisstjórnin hefði yfirsýn og áræði. Þjóðin hefur þegar mætt miklum samdrætti í tekjum sínum. Hún getur áreiðanlega á næsta ári mætt samdrætti, sem spáð er, að nemi aðeins einu prósenti.
Fyrirsjáanleg kreppa felst ekki í þessu eina prósenti, heldur í hugarfari fólks, einkum þeirra, sem taka ákvarðanir fyrir hönd fyrirtækja. Þetta fólk hefur misst kjarkinn. Það sjáum við af sífelldum straumi upplýsinga um uppsagnir starfsfólks og fyrirhugaðar uppsagnir.
Þeir, sem taka svo alvarlegar ákvarðanir, eru ekki að búast við skjótum efnahagsbata. Þeir eru ekki trúaðir á, að Evrópska efnahagssvæðið færi okkur skjóttekinn gróða. Þeir reikna með langri eyðimerkurgöngu og eru að búa fyrirtækin undir að standast hana.
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar felur ekki í sér nein marktæk skilaboð, sem vinnuveitendur geti túlkað sem merki þess, að vorið komi á næsta ári. Það felur þvert á móti í sér þau boð, að stjórnin sjái fyrir sitt leyti ekki neinar greiðar leiðir út úr eyðimörkinni.
Fjárlagafrumvarpið sendir beinlínis neikvæð skilaboð til þeirra, sem misst hafa atvinnu eða eru í þann veginn að missa hana. Þessi skilaboð ríkisstjórnarinnar eru, að atvinnuleysið sé til frambúðar og að öryggisnetið verði fátæklegra en verið hefur að undanförnu.
Hugmyndafræðingar ríkisstjórnarinnar segja henni, að 4% atvinnuleysi þyki lítið í útlöndum og sé nauðsynlegt til að halda aga á þjóðinni til starfa. Hagfræði af þessu tagi tekur ekki tillit til þess, að missir vonar og kjarks er langtum verra mál en agaleysi í starfi.
Ríkisstjórnin hefur verið og er að skera niður möguleika alþýðunnar til að mennta sig út úr erfiðleikunum. Hún hefur verið og er að draga úr stuðningi við þá, sem miður mega sín eða hafa verið óheppnir. Hún hefur óvart stuðlað að aukinni stéttaskiptingu í landinu.
Ráðherrarnir eru svo þröngsýnir, að þeir sjá ekki allt það illa, sem þeir koma til leiðar. Þeir láta aðstoðarmenn krota í tölur á blað á þann hátt, að enginn greinarmunur er gerður á nytsamlegum og gagnslausum atriðum og helzt varðir þeir liðir, sem skaðlegastir eru.
Ríkisstjórnin hyggst halda fullum dampi í varðveizlu kinda og kúa, sem kostar skattgreiðendur átta milljarða á næsta ári og neytendur tólf milljarða. Á þessu sviði sendir ríkisstjórnin þau skilaboð, að hún verji óhagkvæma fortíð gegn framtíðarhagsmunum þjóðarinnar.
Ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við, að mestur hluti þeirra vandræða, sem hafa kostað kjark og von þjóðarinnar, stafar af, að árlega hafa ríkisstjórnir brennt tuttugu milljörðum króna á altari hins hefðbundna landbúnaðar. Hún hyggst halda brennslunni óbreyttri.
Í stað þess að taka af festu á niðurskurði vandræða og eflingu umbóta hefur ríkisstjórnin tekið þá afstöðu í fjárlagafrumvarpi sínu að skera og skattleggja holt og bolt, sitt lítið á hverjum stað. Þetta er ekki ólíkt því, sem tíðkast hefur hjá yfirvöldum, þegar betur hefur árað.
Erfiðir tímar kalla á kjarkmikinn uppskurð, eins konar hreinsunareld, sem veitir von um græna iðavelli. Fjárlagafrumvarpið er léttvægt á þeim mælikvarða.
Jónas Kristjánsson
DV