Skaðlegt hlutafélag

Greinar

Bifreiðaskoðun Íslands sameinar verstu hliðar ríkisrekstrar og einkarekstrar. Hún er rekin sem hlutafélag, er metur sjálft fjárþörf sína, en hefur um leið einokun á sínum markaði, þannig að bifreiðaeigendur geta ekki snúið sér neitt annað til að fá aðalskoðun á bílum.

Afleiðingin er, að skoðunargjald bíla hefur á hálfu öðru ári hækkað um 200­300%. Aðeins brot af skýringunni felst í, að virðisaukaskattur hefur verið lagður á bifreiðaskoðun. Hinu er ekki að neita, að skoðun er vandaðri en áður og þjónusta er betri en áður.

Kunn er saga úr afgreiðslu gamla Bifreiðaeftirlitsins, sem Bifreiðaskoðunin leysti af hólmi. Óþolinmóður bíleigandi sagði stundarhátt: “Ég er viss um, að þetta er stirðasta og versta ríkisfyrirtæki í öllu landinu.” Afgreiðslustúlkan svaraði að bragði: “Tollurinn er verri.”

Þótt þjónusta hafi batnað, skoðun orðið vandaðri og virðisaukaskattur fundinn upp, er út í hött, að skoðun bíla hækki um 200­300% á einu ári. Það var því þarft verk Neytendasamtakanna að gagnrýna hækkunina, sem hlýtur að stríða gegn svokallaðri “þjóðarsátt”.

Athyglisvert er, að Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur lítið látið í sér heyra um þetta mál. Það félag er svo steindautt úr öllum æðum, að það lætur möglunarlítið yfir sig ganga allar hækkanir á benzíni og innflutningsgjöldum. Ekki veitti af að moka þar út eymdinni.

Dómsmálaráðuneytið hafði, undir þáverandi forustu Jóns Sigurðssonar iðnaðarráðherra, frumkvæði að Bifreiðaskoðun Íslands. Þingmenn gleyptu hugmyndina án þess að skilja, hvað í henni fælist. Snöggur framgangur málsins er skólabókardæmi um vinnubrögð Alþingis.

Huglatir þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast hafa verið svo heillaðir af orðinu “hlutafélag”, að þeir héldu sig vera að samþykkja einkavæðingu á hluta af ríkisbákninu. Þeir sáu í hillingum, að skoðun bifreiða mundi að mestu færast inn á bílaverkstæði landsins.

Þvert á móti var málum svo hagað, að hin nýja ríkisstofnun í hlutafélagsformi fékk einkarétt á skoðun bifreiða. Hún hefur frá fyrstu stund verið haldin bygginga- og innkaupaæði, sem endurspeglast að sjálfsögðu í gjöldum þeim, sem fórnardýr hennar verða að greiða.

Samkvæmt bréfi frá dómsmálaráðuneytinu eru gjaldskrár fyrirtækisins byggðar á fjárhagsáætlunum þess og miðaðar við, að tekjur hrökkvi fyrir gjöldum. Þetta er skólabókarformúla um, hvernig ekki á að stunda ríkisrekstur og hvernig ekki á að stunda einkarekstur.

Ríkisrekstur hefur aðhald að ofan, því að Alþingi hefur það hlutverk að skera niður óskalista ríkisstofnana. Einkarekstur hefur aðhald að utan, því að samkeppnisaðilar sjá um, að viðkomandi fyrirtæki geti ekki miðað tekjur sínar við óskalista um útgjöld.

Bifreiðaskoðun Íslands hefur hvorki aðhaldið, sem venjulegar ríkisstofnanir hafa að ofan, né aðhaldið, sem einkafyrirtæki hafa frá ytri markaðslögmálum. Hún er fáránlegt fyrirbæri, sem sameinar flest það versta úr rekstrarformunum, sem notuð eru á Vesturlöndum.

Leggja ber þessa stofnun niður sem fyrst og flytja skoðunina til bílaverkstæða landsins. Samhliða þeim þarf að vera til fámenn ríkisstofnun, sem fylgist með, að bílaverkstæði vandi sig við skoðun. Einnig þarf að rannsaka, hvernig slysið gerðist, þingmönnum til lærdóms.

Loks ber að draga til ábyrgðar þá kerfiskarla, sem fullyrtu á sínum tíma, að Bifreiðaskoðun Íslands mundi í senn leiða til betri þjónustu og lægri skoðunargjalda.

Jónas Kristjánsson

DV