Skaftá

Ýmis vöð á Skaftá.

Svonefndir vatnahestar voru eftirsóttir í nágrenni stórfljóta fyrr á öldum. Oftast voru þetta stórir og rólegir hestar sem stigu upp í strauminn. Menn höfðu svo viðbótaraðferðir við að velja hesta. Vatnastingur var talið tákn um traustan vatnahest. Það er sveipur í hári hests aftan við kverkina. Væri hann báðum megin, var sagt, að vatnastingurinn væri í gegn. Trú manna var, að ekki færist maður í vatni af hesti, sem hefði vatnasting gegnum hálsinn. Ferðir um hættuleg vöð voru örlög fyrirmanna allar aldir fyrir öld brúa. Í öllum árum fórust einhverjir. Og margir fleiri lentu í hremmingum á vöðum.

Fyrir öld brúa urðu hestar að vera vel syndir, þegar í harðbakkann sló á erfiðum vöðum. Eða þegar menn vildu stytta sér leið. Skaftfellskir hestar, einkum úr Hornafirði og Öræfum, voru eftirsóttir fyrir einni öld. Kallaðir vatnahestar. Sumir hestar eru svo djúpsyndir, að hættulegt er að sitja þá. Aðrir synda hátt í vatni og eru þægilegir ásetu við þær aðstæður. Einstaka hestar leita botns í sífellu og hoppa því á sundinu. Ég sá einn hoppa þannig í Holtsós. Þeir eru beinlínis hættulegir. Hlutverk mannsins á sundreið er að vera farþegi á baki, standa í ístöðunum og hanga að öðrum kosti í faxinu.

Farið var yfir Skaftá á fimm stöðum, hjá Skaftárdal, Heiði, Hólmi, í Ásgarðshólum og yfir Landbrotsvötn í heild austur af Uppsalahálsi í Landbroti. Eldvatnið hjá Svínadal var ferjuvatn. Yfir Eldvatnið í Meðallandi var farið á ferju hjá Fljótum eða á vaði nálægt Feðgum. Yfir Geirlandsá var farið austur af Geirlandi. Yfir Breiðbalakvísl var farið vestur af Breiðabólstað eða austan við Keldunúp. Tvær leiðir lágu síðan austur, önnur með Síðufjöllum og hin um Tögl og austur sandana. Fara þurfti fyrir Eldvatnstanga á leiðinni austur frá Teygingalæk. Nokkur vöð voru á Hverfisfljóti. Nokkru fyrir vestan brúna er Eldkróksvað og lá að því vörðuð leið um hraunið, Eldkróksgata. Nokkru ofar er Trjábraut og enn ofar er Sauðavað. Algengasta vaðið var sunnar, fyrir vestan Hvol.

2,7 km
Skaftafellssýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Flosavegur, Holtsdalur, Laki.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins