Skammhlaup ríkissaksóknara.

Greinar

Þjóðkirkjan hefur formlega neitað allri aðild og ábyrgð á skammhlaupi því, sem varð í embætti ríkissaksóknara, er hann höfðaði opinbert mál á hendur gamanblaðinu Speglinum fyrir meint guðlast, klám og ýmislegt fleira.

Þjóðkirkjunni er vel kunnugt um, að veraldleg vandamál fylgja fermingum. Frammámenn hennar hafa sjálfir kvartað um, að fermingar séu gerðar að féþúfu unglinga. Þeim kemur því ekki á óvart, að grín sé gert að fermingum.

Þjóðkirkjan er auðvitað betur fær en ríkissaksóknari um að meta, hvort dregið hafi verið dár að trúarkenningum hennar og guðsdýrkun. Og hún hefur réttilega komizt að þeirri niðurstöðu, að svo hafi ekki verið.

Enginn stjórnmálamanna landsins hefur tjáð sig á þann veg, að hann telji sér hafa verið minnkun gerð með klámi eða á annan hátt í því tölublaði Spegilsins, sem olli hinu furðulega skammhlaupi í embætti ríkissaksóknara.

Í áratuga langri sögu Spegilsins hafa stjórnmálamenn ekki frekar en aðrir vanið sig á að gera veður út af innihaldi tímaritsins. Þeir hafa talið gamanmál þess vera eðlilegan eða að minnsta kosti þolanlegan þátt þjóðlífsins.

Hlægilegastur hefur ríkissaksóknari orðið af þeim þætti málshöfðunarinnar, sem snýr að meintu klámi. Samtök kvenna hafa nefnilega tekið saman stóran bunka innlendra og erlendra tímarita með mun hrikalegra klámi.

Af þeim bunka má sjá, að ríkissaksóknari heldur verndarhendi yfir sölu á hinu ógeðslegasta klámi í annarri hverri sjoppu landsins. Hans er ábyrgðin á því klámi, af því að hann hirðir ekki um að hafa hemilinn, sem honum ber.

Aðgerðaleysi ríkissaksóknara gegn klámritum hefur verið skýrt með því, að almenningsálitið telji ástæðulaust að elta sérstaklega ólar við klám í þjóðfélagi, þar sem kynferðismál eru að hætta að vera feimnismál.

Árum saman hafa ráðamenn og almenningur látið klámritin í friði. Kvartanir hafa verið fáséðar og vægar. Ríkissaksóknari hefur með aðgerðaleysinu verið talinn taka tillit til almenningsálitsins fram yfir bókstafinn.

Svo verður skyndilega það skammhlaup, að ríkissaksóknari fer að fetta fingur út í meinleysislegt klám í gamanstíl, sem stingur í stúf við ógeðslegt og alvörugefið klám, er þessi embættismaður hefur hingað til verndað.

Öll meðferð ríkissaksóknara á Spegilsmálinu er hreint og tært rugl. Hún hlýtur að vekja umhugsun um, að nauðsynlegt kunni að verða að búa svo um hnútana, að ekki sé frekari hætta á skammhlaupi í hinu valdamikla embætti.

Ef dómstólar vísa ruglinu út í yztu myrkur, svo sem réttmætt er, má telja líklegt, að ríkissaksóknari hafi bakað ríkissjóði og skattgreiðendum fjárhagstjón með afbrigðilegum skoðunum á trúmálum, klámi og ýmsu fleiru.

Ríkissaksóknari tók sér heilan mánuð til að grafa upp kæruatriði út af því tölublaði Spegilsins, sem hann lét gera upptækt í maílok. Hann hefur haft nógan tíma til að láta þjóðkirkjumenn, stjórnmálamenn og siðferðismenn hafa vit fyrir sér.

Af ákærunni er ljóst, að þetta hefur ríkissaksóknara ekki tekizt. Hann situr því uppi sem dæmigert Spegilsefni, aðhlátursefni almennings. En í alvörunni eiga ekki að geta gerzt skammhlaup af þessu tagi.

Jónas Kristjánsson

DV