Skammrif með böggli

Greinar

Ríkisstjórnarflokkarnir ætla að halda áfram að starfa saman eftir kosningar. Þeir telja, að þriggja ára reynsla sýni, að samvinna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sé traustari en áður var haldið, þegar menn höfðu gamlar helmingaskiptastjórnir þessara flokka í huga.

Helztu hugsjónamenn framhalds núverandi mynzturs eru auðvitað ráðherrar beggja flokka. Þeim er yfirleitt ljóst, að þeir gætu ekki unnið fyrir sér með öðrum hætti á meira kaupi og fríðindum en þeir hafa núna. Þeir horfa ekki bara fimm ár, heldur níu ár fram á við.

Undanfarnar vikur hefur mjög borið á viðleitni í herbúðum Sjálfstæðisflokksins að afsaka eða réttlæta stjórnarsamstarfið. Grunntónn þeirrar umfjöllunar er, að ríkisstjórnin hafi náð þvílíkum árangri, að helzt minni á hina ákaft hörmuðu viðreisnarstjórn.

Hæst ber fréttaskýringu í Morgunblaðinu, þar sem reynt var að sýna fram á, að ungliðaþing Framsóknarflokksins hefði sýnt burði til að gera þann flokk að nýjum, endurfæddum flokki. Áður höfðu birzt greinar í Stefni um, að Framsókn væri ekki sem verst.

Sannleikurinn er hins vegar, að þing ungra framsóknarmanna sýndi algera uppgjöf þeirra gagnvart hinu ráðandi afli flokksins, þingflokknum. Fyrra digurbarkatal um alger umskipti í þingliði varð að mjóróma bæn um, að einhverjum öldungnum yrði skipt út.

Í þessari tilraun til sjálfssefjunar hefur Sjálfstæðis flokkurinn óbeint viðurkennt, að heppilegt sé, að Steingrímur Hermannsson verði áfram forsætisráðherra. Hann sé kjörið sameiningartákn þeirra afla, sem vilja meira af núverandi ástandi í þjóðfélaginu.

Við nánari athugun kemur í ljós, að þetta er ekki svo vitlaust. Eftir langt hlé eru lífskjör þjóðarinnar farin að batna á nýjan leik. Atvinna er rífandi um allt land, fiskveiðiflotinn í ofsagróða og síðast en ekki sízt er verðlag orðið tiltölulega traust, ­hreint kraftaverk.

Að vísu er hætta á, að verkalýðsrekendur átti sig á, að stjórnarsamstarfið sé í þann mund að verða varanlegt og reyni að spilla því með kröfugerð, sem blási vindum í lognmolluna. En þeir yrðu þá að njóta stuðnings fólks, sem er í raun ánægt með núverandi stöðu.

Sennilega verður erfitt fyrir verkalýðshreyfinguna að koma illu af stað eftir áramótin. Þjóðin mun ekki fallast á að fara í pólitískt verkfall gegn ríkisstjórninni. Helzt eru kennarar og nokkrir aðrir hópar ríkisstarfsmanna líklegir til átaka, ­ áhrifalítilla átaka.

Um leið og þjóðin getur hrósað happi yfir, að almenn hagfræðilögmál fái að leika lausum hala í nokkur ár í viðbót eftir markvissar tilraunir ýmissa vinstri aðila til að framleiða efnahagsrugl, verður hún að átta sig á, að ýmis böggull fylgir hinu bragðgóða skammrifi.

Við fáum fjögur, ef ekki átta ár í viðbót af stöðugri blóðtöku til að halda lífi í dauðvona landbúnaði kúa og kinda. Á fjárlögum verður árlega varið til þess milljörðum, sem nýtast ekki til annarra þarfa. Enda segja skoðanakannanir, að þjóðin sætti sig við byggðastefnu.

Við verðum áfram að þola ferðir sjávarútvegsráðherra út um allan heim til að vekja athygli á, að við séum vond hvalveiðiþjóð, sem ekki beri að kaupa af sjávarafurðir. Það er sanngjarnt böl, þar sem allur þorri þjóðarinnar styður þjóðernisruglið um vísindaveiðar.

Slíkir bögglar eru þó léttari á metunum en tilfinningin fyrir stjórnarfestu, sem leggur áherzlu á stöðugt verðlag og almenna virðingu fyrir hagfræðilögmálum.

Jónas Kristjánsson

DV