Skammtíma-raunsæi

Greinar

Utanríkisráðherrar Evrópubandalagsins hafa ákveðið að frysta ekki lengur fjárhagsaðstoð bandalagsins við Gorbatsjov Sovétforseta. Fyrir hönd Vestur-Evrópu hafa þeir fetað í fótspor Bush Bandaríkjaforseta, sem einnig hefur veðjað á, að framtíð sé falin í Gorbatsjov.

Pólitísk framganga Bandaríkjastjórnar og flestra stjórna í Vestur-Evrópu gagnvart Sovétríkjunum segir lýðræðisöflum og sjálfstæðisöflum Sovétríkjanna að hafa sig hæg. Um leið segir hún afturhaldsöflum Sovétríkjanna, að þau hafi frjálsar hendur til kúgunar.

Viðhorf af þessu tagi eru mótuð af svokölluðum “raunsæismönnum” í utanríkisráðuneytum vestrænna ríkja. Eðlilegast væri að kalla þau “skammtímaviðhorf”, því að þau fela nánast undantekningarlaust í sér stuðning við ríkjandi ástand og valdhafa hvers tíma.

Reagan Bandaríkjaforseti og Kissinger utanríkisráðgjafi voru á sínum tíma helztu talsmenn svokallaðrar “raunsæisstefnu” gagnvart harðstjórum úti í heimi. Þeir voru til dæmis sá Drakúla greifi, sem bjó til Frankenstein þann, sem við þekkjum sem Saddam Hussein.

Eftir innreið klerkaveldis í Persíu ákvað Bandaríkjastjórn að setja hald sitt og traust á Saddam Hussein í Írak til jafnvægis við klerkana í Persíu. Ekkert var hlustað á þá, sem sögðu, að það væri að fara úr öskunni í eldinn að halla sér að enn verri harðstjóra.

Í kjölfar Reagans og Kissingers sigldu svo vopnasalar Vesturlanda. Saddam Hussein átti olíupeninga eins og skít og keypti hvað sem var, einnig búnað til undirbúnings efna- og eiturhernaðar, svo og kjarnorkustyrjaldar. Þannig var vakinn upp sá draugur, sem nú er barizt við.

Reagan og Kissinger studdu einnig Suharto í Indónesíu, einn versta harðstjóra tuttugustu aldar. Bush hefur erft þá raunsæisstefnu, sem á eftir að verða Vesturlöndum dýr, þegar reikningar Indónesa við Suharto-gengið verða gerðir upp um síðir, líklega á þessum áratug.

Raunsæisstefnan stuðlaði einnig að stuðningi við helztu fúlmenni Suður- og Mið-Ameríku. Afleiðingin er auðvitað sú, að almenningur í þessum heimshluta lítur á Bandaríkin sem hið illa afl. Tjónið, sem Kissinger hefur valdið, verður seint mildað og hvað þá bætt upp.

Bush Bandaríkjaforseti er með fjölda uppvakninga á bakinu. Hann hefur persónulega lagt áherzlu á, að halda góðu sambandi við stjórnvöld í Kína og efla samskiptin við þau á nýjan leik eftir andartaks hlé, sem varð við blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar árið 1989.

Meðan leikin var heimsveldaskák Bandaríkjanna og Sovétríkjanna höfðu hinir svokölluðu “raunsæismenn”, það er að segja “skammtímamenn” sér lélega afsökun í, að harðstjórarnir mundu halla sér að Sovétríkjunum, ef Bandaríkin veittu þeim ekki stuðning.

Þessi afsökun gildir ekki lengur, því að Sovétstjórnin er horfin frá taflborði heimsveldastefnu og einbeitir sér að kúgun innan eigin landamæra. Það er því liðin tíð að meiri og minni háttar Frankensteinar eigi sér öruggt skjól sem eins konar peð í alþjóðlegu valdatafli.

Stríðið við Persaflóa er alvarleg áminnig um gjaldþrot hinnar svokölluðu “raunsæisstefnu” í alþjóðamálum. Miklu nær væri að haga samskiptum Vesturlanda við stjórnir í öðrum heimshlutum í samræmi við stöðu þeirra á kvarða mannréttinda og lýðræðis.

Ef Vesturlönd hætta að moka peningum og vopnum í hvers konar harðstjóra, mun það fljótt leiða til stórkostlegrar sveiflu í átt til lýðræðis og mannréttinda.

Jónas Kristjánsson

DV