Churchill og de Gaulle löguðu ekki skoðanir sínar að því, sem þeir lásu í skoðanakönnunum. Þeir héldu fast við sitt og sættu sig við að fara frá völdum. Síðan kölluðu þjóðir þeirra aftur á þá, þegar harðnaði á dalnum. Þess vegna eiga þeir báðir sess í mannkynssögunni.
Nú á tímum er minna um, að þjóðarleiðtogar leiði þjóðir. Í vaxandi mæli eru forustumenn þjóða leiddir af stundarfyrirbærum á borð við skoðanakannanir. Þeir hafa engin sérstök sjónarmið, en reyna að haga seglum á þann hátt, að þeir vinni næstu kosningar.
Skammtímamenn og einnota hafa í auknum mæli leyst langtímamenn af hólmi. Margir stjórnmálamenn nútímans beygja sig eftir meintum þörfum hvers tíma, þar á meðal duttlungum líðandi stundar og sérhagsmunum þeim, sem háværastir og frekastir eru hverju sinni.
Gott dæmi um breytinguna er tollfrelsisklúbburinn GATT, sem komið var á fót af víðsýnum stjórnmálamönnum eftir stríð. Þeir sáu, að allar þjóðir mundu græða á að lækka tolla og minnka aðrar samkeppnishindranir, þótt einstakir sérhagsmunir yrðu að víkja.
Nú vantar þessa yfirsýn. Stjórnmálamenn, allt frá Evrópubandalaginu til Íslands, eru ófærir um að þróa GATT áfram til enn meiri framtíðargróða fyrir alla. Þeir eru þvert á móti fastir á bólakafi í þjónustu við mjög þrönga sérhagsmuni. Þeir eru að drepa GATT.
Ætla mætti, að stjórnmálamenn, sem hafa náð langt, öðluðust yfirsýn með því að hugleiða stöðu sína í sögunni. Ætla mætti, að þeir leiddu hugann að því, hvað verði sagt að þeim látnum eða hvað verði sagt um þá á næstu öld. Ætla mætti, að þeir vildu eignast orðstír.
Í stað þess eru þeir uppteknir við skammtíma á borð við háværa þrýstihópa, sveiflu í næstu skoðanakönnunum eða í mesta lagi niðurstöðu næstu kosninga. Þeir vilja sigra í bardögum og gera það oft, en tapa styrjöldunum að baki. Þeir minna á Phyrros og Hannibal.
Iðkendur stjórnmála eru farnir að meta árangur sinn eftir því, hvernig þeir geti sloppið fyrir horn frá degi til dags. Þeir hafa enga þolinmæði, ekkert úthald til að spá í, hver verði staða mála að tíu eða tuttugu árum liðnum. Þeir lifa í skammtímanum og velkjast um í honum.
Bandaríkin eru lengst komin á þessari braut. Þar er forseti, sem hefur enga yfirsýn eða siðferðiskjarna, en getur unnið kosningar. Þar er atvinnulífinu meira eða minna stjórnað af mönnum, sem ekki sjá lengra en til næsta aðalfundar, næstu birtingar reikninga.
Af þessum ástæðum fara Bandaríkin halloka í viðskiptasamkeppni við Japan. Af þessum ástæðum er þar í landi rekin hallastefna í efnahagsmálum, sem byggist á að eyða því í dag, sem aflast kann á morgun. Þessi stefna kom með Reagan og hefur haldizt með Bush.
Okkar menn fara í humátt á eftir þessu. Þeir hrökkva í kút í hvert sinn, sem þröngir sérhagsmunir reka upp vein. Þeir grípa skjálfandi höndum um niðurstöður skoðanakannana. Þeir eru svo einnota, að þeir sjá varla fram til næstu kosninga. Þeir bara sitja meðan sætt er.
Ráðherrar þessarar stjórnar og nokkurra næstu á undan henni hafa flestir sérhæft sig í að taka tillit til þrýstihópa og bjarga stjórnarsetu sinni fyrir horn frá degi til dags. Þeir berja ekki í borðið og segja nei, líklega af því að þá skortir grundvallarsjónarmið.
Ráðamönnum ber að stjórna og standa og falla með gerðum sínum. Reyni þeir bara að sitja, er hætt við að orðstír þeirra verði lítill í eftirmælum sögunnar.
Jónas Kristjánsson
DV