Skapgerðarbrestur þjóðarinnar

Greinar

Útlendingar eru seinþreyttir að verða hissa á drykkjulátum Íslendinga. Þau eru til dæmis til umræðu í alþjóðlegum spjallþáttum sálfræðinga á Netinu. Þeir furða sig til dæmis á, að þjóð, sem innbyrðir óvenjulega lítið áfengi, skuli eigi að síður drekka sér til óbóta.

Húsadalshelgi Austurleiða í Þósmörk um helgina er orðin að árvissum þætti hins merkilega og einstæða fyrirbæris, sumardrykkjuferða unglinga. Þær ná venjulega árlegu hámarki um verzlunarmannahelgi, þegar óharðnað fólk veltist organdi um í eigin spýju.

Þáttur unglinga í ölæði Íslendinga er ekki meiri en annarra. Hann er hins vegar meira áberandi, af því að hann fer fram úti á götum í miðbæjum og á fjöldasamkomum til sveita. Eldra fólk veltist frekar organdi um í spýju sinni heima hjá sér bak við luktar dyr.

Unglingarnir hafast það að úti á malbiki eða grasi, sem þeir sjá hina fullorðnu gera á teppum og parketti. Þetta er gamla sagan um, að það, sem höfðingjarnir hafast að, hinir halda sér leyfist það. Drykkjuvolæði Íslendinga er alls ekki sérhæft unglingavandamál.

Flestir Íslendingar haga sér eins og annað fólk. En ölæðisfólkið er hlutfallslega fjölmennara hér á landi en í öðrum löndum, til dæmis á Norðurlöndum og Bretlandseyjum. Það gefur tóninn í meira mæli og vekur því sérstaka athygli gesta, sem ber að garði.

Við þurfum að fara að taka á þessu vandamáli, ekki vegna útlendinganna, sem hingað koma, heldur vegna sjálfsvirðingar þjóðarinnar. Við þurfum að losa okkur sem þjóð við skapgerðarbrestinn, sem brýtur persónuna niður í ósjálfbjarga slytti, er veltist um á jörðinni.

Útlendingar eru aðeins nefndir í þessu samhengi, að þeir eru vitni að atburðunum og segja frá þeim, þegar heim er komið. Vegna þessa vitnisburðar, sem birtist sí og æ í erlendum fjölmiðlum, er ekki hægt að afneita því, að ofurölvun er séríslenzk þjóðarmeinsemd.

Í engilsaxneskum löndum er mikið drukkið. Þar er hins vegar viðurkennd hefð, að fólk reynir í lengstu lög að halda höfði. Þar er talið niðurlægjandi að verða áberandi ölvaður. Menn reyna að hætta drykkju, þegar þeir eru farnir að missa stjórn á boðkerfum líkamans.

Hér á landi hefur ekki mótast slík hefð. Fólki finnst það einfaldlega vera í lagi að missa stjórn á sér af völdum ofdrykkju. Þessi skoðun endurspeglast síðan í öðrum vandamálum, þar á meðal í unglingadrykkju, en einnig í ofbeldisglæpum, sem framdir eru undir áhrifum.

Ísland væri nánast glæpafrítt land, ef ekki væru ölæðisglæpirnir. Það eru ekki bara ofbeldisverkin, sem framin eru undir áhrifum, heldur flest auðgunarbrotin einnig. Allur þorri þeirra, sem dæmdir eru til fangavistar, flokkast sem áfengis- eða eiturefnasjúklingar.

Mikilvægt er að taka í löggæzlunni og í dómskerfinu á birtingarmyndum vandamálsins. Refsingar við glæpum þarf að herða. Stemma þarf stigu við ölæði á almannafæri, hvort sem er á fjölmennum samkomum eða á götum úti í hjarta miðborgar Reykjavíkur.

Mestu máli skiptir þó að grafast fyrir rætur meinsins. Finna þarf, hvað það er í hugarfari Íslendinga, sem gerir okkur ólíka öðrum þjóðum, þótt skyldar okkur séu. Við þurfum að einangra skapgerðarbrestinn og skapa nýja hefð um, að menn skuli ávallt halda höfði.

Við þurfum að byrja á uppeldi hinna fullorðnu, foreldra, skólamanna, íþróttaþjálfara og annarra æskulýðsleiðtoga. Þar finnum við fyrirmyndir unglinganna.

Jónas Kristjánsson

DV