Fyrir 30 árum voru skattar til ríkis og sveitarfélaga 25% þjóðartekna. Fyrir 10 árum voru þeir 35%. Á þessu ári eru þeir komnir upp í 45%. Með sama áframhaldi verða opinberir skattar komnir upp í 55% þjóðartekna eftir aðeins fimm ár.
Skattheimtan er þannig nú þegar komin upp undir það, að önnur hver króna renni til hins opinbera. Hjá fólkinu í landinu litur þetta enn verr út, því að hlutur hins opinbera er enn hærri af þeim viðbótarkrónum, sem menn vildu kannski afla.
Í mörgum fjölskyldum vilja menn afla sér aukatekna vegna tímabundinna eða langvinnra þarfa. Þetta hafa menn til dæmis gert með yfirvinnu, bónusvinnu eða með því að hjón vinni bæði úti. Þessi vinnuþrælkun skilur lítið eftir.
Samkvæmt skattstiga hinnar nýju og gráðugu ríkisstjórnar eiga beinir skattar, það er tekjuskattur, útsvar, byggingasjóðsálag, sjúkratryggingargjald og kirkjugarðsgjald að fara upp í 65% af þeim viðbótarkrónum, sem menn afla sér.
Þessi prósentutala er að vísu ekki sama eðlis og hinar, sem fyrr voru nefndar. Hún er ekki greidd fyrr en ári eftir að peninganna er aflað og er því ekki svona há í raun. En á móti kemur, að í hana vantar alla óbeinu skattana, svo sem sölugjald.
Þess vegna ætti í heild að vera nálægt lagi, að tvær krónur af hverjum þremur krónum viðbótartekna lendi hjá hinu opinbera. Þetta eru uggvænleg tíðindi fyrir þá, sem eru að þræla, til dæmis fyrir þaki yfir höfuð sitt og sinna.
Hraði þessarar óheillaþróunar hefur vaxið áttunda tug þessarar aldar undir dauðri hendi tveggja vinstri stjórna og einnar hægri stjórnar. Hin nýja ríkisstjórn hefur á tveggja mánaða ferli riðið mikinn á sama helvegi skattagræðginnar.
Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen hefur ekki skilið, fremur en aðrar stjórnir eftir viðreisn, að það er takmarkað, sem fátækt þjóðfélag getur lagt til sameiginlegra þarfa. Sú geta takmarkast af stöðnuðum þjóðartekjum Íslendinga.
Á einum áratug ómögulegra ríkisstjórna hafa launagreiðslur ríkisins aukizt úr 20% skatttekna í 30%. Einn maður þjónar nú ríkinu á hverja fjóra í atvinnulífinu, en var einn á hverja sjö fyrir tíu árum. Þessa þróun verður að stöðva.
Allir eru sammála um, að skattagræðgin sé komin út yfir allan þjófabálk. Meðal annars hefur Verkamannasambandið lýst því yfir, að “ríkisstjórnin getur ekki vænzt aðhalds af öðrum aðilum, þegar hún heimtar sífellt meira í sinn hlut”.
Í yfirlýsingu Verkamannasambandsins segir einnig: “Á sama tíma og kjaraskerðingar dynja yfir af völdum verðlagshækkana, er óhæfa að skerða kjörin frekar með skattaálögum eins og samþykktar hafa verið”. Þessa óhæfu hefur ríkisstjórnin framið.
Eini ljósi bletturinn í frumskógi hinnar opinberu skattagræðgi eru tilraunir nokkurra sveitarfélaga til að láta sér nægja lægri útsvör og fasteignagjöld en leyfileg eru. Fremst er þar Seltjarnarnes, sem heldur sér við 10% útsvar.
Önnur sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkur, þar sem sjálfstæðismenn hafa meirihluta, fjalla nú um að halda sér við 11% útsvar, meðan Reykjavik er komin í 11,88% og önnur í 12,21%. Ef þetta viðnám kemst til framkvæmda, mun það vekja mikla athygli.
Stjórnmálamenn á þingi sitja eins og jólasveinar með sveittan skallann við að uppfylla sífellt nýjar, sameiginlegar þarfir, sem tekjur þjóðarinnar standa ekki undir. Þeir átta sig ekki á, að skattagræðgin er að verða hið stórpólitíska sprengiefni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið