Samkvæmt blaði frá tollstjóranum borga ég 2.844.268 krónur í skatt á þessu ári. Það er sjálfsagt hæfilegt og er sem betur fer ekki leyndó. Hins vegar hefur skatturinn tekið af mér 3.162.042 krónur, sem er 317.774 krónum of mikið. Ég hef meira að segja fengið ávísun upp á mismuninn. Hvergi í þessum plöggum er þess getið, að ég fái vexti og dráttarvexti af því, sem ríkið hefur oftekið. Ef hins vegar ríkið hefði vantekið af mér, þyrfti ég að borga vexti og dráttarvexti. Ríkið vill ekki jafnræði í þessu. Það er ein af orsökum þess, að flestir hata ríkið eins og pestina.