Skattaskuld og einkamál

Fjölmiðlun

Sumir álitsgjafar telja óviðurkvæmilegt að 24 stundir segi frá skattaskuld Jakobs Frímanns Magnússonar. Þeir telja hana vera einkamál. Það er aldeilis fráleit skoðun. Sé maður ráðinn til að vera svonefndur miðborgarstjóri í Reykjavík, skiptir máli, að hann sé til fyrirmyndar. Ef allir höguðu sér í sköttum eins og Jakob hefur gert, væri ekki hægt að halda uppi rekstri hjá Reykjavíkurborg. Álagning skatta á ekki að vera neitt einkamál. Þaðan af síður eiga vanskil á sköttum að vera neitt einkamál. Allra sízt hjá mönnum, sem eru í sviðsljósinu vegna áhrifamikilla starfa hjá hinu opinbera.