Nýjustu aðgerðir í þágu heimilanna eru sagðar kosta 90 milljarða. Þar af lenda 60 milljarðar á bönkunum, 20 milljarðar á Íbúðalánasjóði og 10 milljarðar á lífeyrissjóðunum. 20 milljarðar Íbúðalánasjóðs færast svo yfir á ríkið, sem þarf að styrkja eiginfjárstöðu sjóðsins um sömu upphæð. Ríkið verður að halda sjóðnum gangandi til að hægt sé áfram að lána íbúðaeigendum. Þetta eru háar fjárhæðir, raunar of háar. Og ósanngjarnt er að láta allar lausnir bitna á skattgreiðendum. Við verðum þó að sætta okkur við þetta sem hluta af eins konar þjóðarsátt um skiptingu tjóns af hækkun íbúðalána.