Skekkjur í skólaskýrslu

Greinar

Marklaus er samanburður Íslands og umheimsins í nýjustu fjölþjóðaskýrslunni um kunnáttu nemenda í raungreinum. Svo miklir annmarkar eru á forsendum nýja samanburðarins, að ekkert stendur eftir af fullyrðingum um betri árangur en í fyrra samanburði.

Þetta var skýrsla um raungreinakunnáttu íslenzkra framhaldsskólanema. Áður höfðu birzt skýrslur um slíka kunnáttu nemenda á tveimur mismunandi stigum grunnskólans, í 7. og 8. bekk annars vegar og í 3. og 4. bekk hins vegar. Þær höfðu sýnt slæma stöðu okkar.

Nýja skýrslan nær ekki til sumra þeirra þjóða, sem beztum árangri náðu í fyrra samanburði, einkum Asíuþjóða. Þetta lyftir Íslandi í röðinni, án þess að aukin kunnátta sé að baki. Niðurstöðurnar draga ekki úr þörf okkar fyrir að kynna okkur skólana í Singapúr.

Nýja skýrslan nær aðeins til þeirra þriggja af hverjum fjórum nemendum, sem kusu að mæta til prófs. Það er mun lakara hlutfall en var að meðaltali hjá öðrum þjóðum. Þar sem gera má ráð fyrir, að hinir lakari hafi setið heima, gefur þetta Íslandi óeðlilega háar tölur.

Nýja skýrslan nær aðeins til þeirra, sem eru í framhaldsskólum. Hlutfallslega færri stunda slíkt nám hér á landi en í flestum samanburðarlöndunum. Þetta skekkir myndina, því að gera má ráð fyrir, að lakara raungreinafólkið heltist frekar úr lestinni í framhaldsskólum.

Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum þremur stórtæku skekkjuvöldum, stendur enn það, sem sást af fyrri skýrslum, að ástand raungreinakunnáttu á Íslandi er dapurlegt. Því er ekki nokkur ástæða til að nota nýju skýrsluna til að ýta vandanum út af borðinu.

Fremur er ástæða til að ítreka, að skýrslur þessar sýna í heild ekkert samhengi milli árangurs annars vegar og fyrirhafnar hins vegar, eins og hún mælist í fjárframlögum, fjölda kennslustunda og hlutfallslegum fjölda kennara. Fátæk lönd standa sig betur en við.

Þótt getuleysi okkar í raungreinum stafi ekki af of lítilli fyrirhöfn okkar í skólamálum yfirleitt, getur það sumpart stafað af rangri skiptingu menntunarframlaga þjóðarinnar, rangri skiptingu kennslustunda og rangri kennaramenntun. Raungreinar séu öskubuska.

Einnig hefur oft verið bent á, að tízkustraumar í skólastefnu bárust hingað fyrir tveimur áratugum og hafa tröllriðið ráðuneyti, námsstjórum og kennaraháskóla æ síðan. Þetta er stefna fúsks og leikja að hætti Piagets, sem dregur úr líkum á, að nemendur læri að puða.

Lítill árangur í raungreinum er eðlileg afleiðing þeirrar stefnu, að skólar eigi að vera skemmtilegar félagsmiðstöðvar fyrir jafnaðarsinnað fólk, sem líði vel í vinnuhópum, þar sem einn vinnur verkið fyrir alla. Í slíku kerfi er ræktaðir embættismenn, en ekki framtaksfólk.

Opinber umræða á Íslandi ber einmitt merki agaskorts, sem stafar af of lítilli rökfestu og of lítilli tilvísun til staðreynda í málflutningi margra þeirra, sem telja sig eiga erindi á umræðumarkaðinn. Opinber umræða einnkennist í allt of miklum mæli af hreinu blaðri.

Stór hópur skólastjóra fór nýlega til Singapúr til að kynna sér skólana þar og finna mismuninn. Við þurfum líka að kynnast góðri stöðu Hollendinga. Meira gagn er og verður af slíkum ferðum en villandi skýrslu, sem gefur þægilega niðurstöðu í skjóli rangra aðferða.

Þegar skólastjórarnir koma frá Singapúr, skulum við heyra, hvað þeir telja okkur geta lært af þarlendum, svo að þjóðin verði samanburðarhæf og samkeppnishæf.

Jónas Kristjánsson

DV