Skelfiskur í Höfninni

Veitingar

Eitt góðu veitingahúsanna í Reykjavík er Höfnin við Geirsgötu 7, sem sérhæfir sig í skelfiski í skelinni. Þar fæst blanda af kúskel, bláskel, hörpudisk og risarækju í sterkkrydduðu kjúklingaseyði með kúskús, engifer og vorlauk á 3290 krónur. Bjórsoðin bláskel með frönskum og kryddjurtamæjónes kostar 2530 krónur. Bjórsoðnu bláskelina með frönskum er líka hægt að fá með kryddjurta-, hvítlauks- og sinnepssósum á 3990 krónur. Ekki má heldur gleyma skelfisksúpu með humri, bláskel, hörpudisk, fenniku og þeyttum rjóma á 2350 krónur. Og svo eru ristaðir humarhalar með klettasalati, léttsýrðri sellerýrót, radísum og heitri hvítlauksolíu á 3290 krónur. Verð sýnist mér vera í hóflega kantinum.