Skemmdir kartöfluflokkar.

Greinar

Framsóknarflokkurinn gæti ekki haldið áfram að ofsækja neytendur, ef hann nyti ekki fyllsta stuðnings þingflokks sjálfstæðismanna. Sameiginlega hafa þessir tveir skemmdu kartöfluflokkar svæft frumvarpið um afnám Grænmetiseinokunar með því að vísa því til ríkisstjórnarinnar.

Hinn eini réttláti í þingflokki sjálfstæðismanna var Eyjólfur Konráð Jónsson, sem greiddi atkvæði gegn svæfingunni. Er nú ekki einu sinni Albert Guðmundsson lengur með á nótunum. Hann studdi þó fyrir stuttu með Eyjólfi Konráð tillögu um sölu ríkisbankanna.

Enginn ætlast til, að Framsóknal.flokkurinn geri nokkuð fyrir neytendur í landinu. Hann er einn af hornsteinum Landseigendafélagsins, sem lítur á neytendur sem ánauðugt fólk. Enda má segja, að hinir fáu kjósendur flokksins í þéttbýli séu haldnir eins konar sjálfskvalastefnu.

Hitt er athyglisverðara, að þingflokkur sjálfstæðismanna skuli standa öflugan vörð um hagsmuni einokunarinnar. Hann gerir grín að undirskriftum 20.000 neytenda með því að hunza þær. Hann telur vafalaust, að málið verði gleymt og grafið í næstu kosningum.

Varnarstríð Jóns Helgasonar landbúnaðarráðherra í kartöflumálinu vekur engar vonir um eðlilega framvindu málsins. Hann leyfði um síðir innflutninginn með því skilyrði, að hann yrði ekki frjáls. Hann skyldaði heildsalana til að mynda einokunarhring um innflutninginn.

Tvíokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins og hrings heildsala tryggir ekki hagsmuni neytenda. Við höfum þegar séð, að ítölsku kartöflurnar voru of smáar. Frjáls samkeppni heildsala mundi fljótlega þvo burt þá aðila, sem endurtækju slík mistök í innkaupum.

Markmið Jóns Helgasonar er auðvitað að sá til vantrúar almennings á afnámi kartöflueinokunar Grænmetisverzlunarinnar. Það gerir hann með því að leyfa innflutning til bráðabirgða, en gefa hann ekki frjálsan. Síðan hyggst hann endurnýja einokunina, þegar neytendur missa úthaldið.

Landbúnaðarráðherra hefur líka skipað í málið nefnd, sem á að drepa málinu á dreif. Í fyrstu bókun nefndarinnar varar hún einróma og eindregið við skipulagsbreytingu á sölukerfinu að svo komnu máli. Neytendur munu ekki geta sótt hald og traust í þessa afturhaldsnefnd.

Engin ástæða er til að ætla, að stjórnmálamönnum Sjálfstæðisflokksins takist að hindra ráðagerðir Jóns Helgasonar og Landseigendafélagsins. Ekki eru nema nokkrir dagar síðan þeir gáfust upp fyrir Framsóknarflokknum í söluskattsvikunum á kókómjólk.

Með verðlækkun á kókómjólk hefur verið viðurkennt, að árum saman hefur verið stolið undan söluskatti. Samt gerir þingflokkur sjálfstæðismanna samkomulag um að söluskattur verði ekki innheimtur að sinni. Menn eru komnir á lágt stig, þegar þeir semja um slík lögbrot.

Þeir voru líka langt niðri, þegar þeir samþykktu, að engin rekistefna yrði gerð út af samsæri Sambands íslenskra samvinnufélaga og Grænmetisverzlunar landbúnaðarins um innflutning á ónýtum kartöflum, sem veldur neytendum fimm milljón króna tjóni um þessar mundir.

Dæmin sýna, að neytendur eiga ekki hauk í horni Sjálfstæðisflokksins, bandingja Framsóknarflokksins. Eina vopn þeirra í stríðinu við einokunina er að halda áfram viðskiptabanninu á Grænmetisverzlunina, ekki bara í nokkrar vikur, heldur árum saman, ef með þarf. Í svona máli dugar aðeins harkan sex.

Jónas Kristjánsson.

DV