Forstjórar helztu fáokunarfyrirtækja landsins hafa nýlega kvartað yfir hamlandi aðgerðum Samkeppnisstofnunar, rétt eins og fjármálaráðuneytið hefur nýlega kvartað yfir, að Ríkisendurskoðun sé að takmarka svigrúm framkvæmdavaldsins. Hvort tveggja er hrós.
Markmið Ríkisendurskoðunar er að takmarka svigrúm framkvæmdavaldsins til að fara sínu fram. Alþingi rekur þessa stofnun til að auðvelda sér það óvinnandi verk að hafa hemil á sjálfvirkri viðleitni hins sterka geira ríkisvaldsins til að vaða yfir þing og þjóð.
Markmið Samkeppnisstofnunar er sömuleiðis að takmarka svigrúm valdhafa, í því tilfelli atvinnulífsins. Hún á að hjálpa neytendum í hörðum heimi, þar sem fáokunarfyrirtæki, sem eru ráðandi á markaði, reyna að verða einokunarfyrirtæki, sem eru allsráðandi.
Umboðsmaður Alþingis er þriðji hemillinn, sem hefur bakað sér reiði þeirra, sem völdin hafa í þjóðfélaginu. Hrokafullt yfirmannagengi fjármálaráðuneytsins hefur kerfisbundið hunzað bréf hans og misnotað tímann til að magna böl það, sem bréfin áttu að bæta.
Barátta lítilmagnans við hina sterku er sérstaklega erfið á Íslandi. Atvinnulífið var lengst af reyrt í viðjar fáokunar, þar sem annars vegar voru þau fyrirtæki, sem nú eru flokkuð sem kolkrabbinn, og hins vegar þau fyrirtæki, sem nú eru flokkuð sem smokkfiskurinn.
Hvor hópur hafði sinn stjórnmálaflokk til að reka erindi sín. Málið hefur einfaldazt á síðari árum, því að eftir situr í stórum dráttum aðeins einn kolkrabbi með stjórnmálaarm í Sjálfstæðisflokknum. Sá flokkur er fyrst og fremst hagsmunatæki fáokunarfyrirtækjanna.
Með óhjákvæmilegri opnun þjóðfélagsins að vestrænum hætti hafa verið settar á fót stofnanir til að gæta hagsmuna þjóðfélagsins gegn þeim, sem misnota völdin. Umboðsmaður Alþingis, Ríkisendurskoðun og Samkeppnisstofnun eru þekkt dæmi um slíkar stofnanir.
Yfirstéttin á Íslandi hefur neyðzt til að sætta sig við þetta, svo að afurðir Íslands verði gjaldgengar í vestrænum viðskiptalöndum okkar. Hún hefur neyðzt til að leyfa okkur að taka þátt í Fríverzlunarsamtökunum, Evrópska efnahagssvæðinu og Heimsviðskiptastofnuninni.
Vegna þessara samskipta við útlönd er hægt að kæra rangláta dóma Hæstaréttar og samkeppnishamlandi aðgerðir stjórnvalda til ýmiss konar erkibiskupa í Evrópu. Vegna þeirra neyðast stjórnvöld til að láta þýða ótal reglugerðir, sem bæta hag hinna smáu og veiku.
Kolkrabbinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru hins vegar sammála um, að ekki megi vera til umræðu að ganga í Evrópusambandið, því að þá verði enn skert svigrúm kolkrabbans og embættismannagengisins til að efla hina sterku, ríku og gráðugu á kostnað hinna veiku.
Framsóknarflokkurinn hefur lagt, leggur enn og mun áfrem leggja sitt lóð á sömu vogarskál, enda telur hann sig vera málsvara leifanna af gjaldþroti Sambands íslenzkra samvinnufélaga, eins og við sjáum þær í nokkrum fyrirtækjum, sem kennd eru við smokkfisk.
Árásir á Ríkisendurskoðun og Samkeppnisstofnun fela í sér kúgunartilburði embættismannakerfis og kolkrabba. Því miður er líklegt, að andúð valdhafanna geti minnkað vilja og getu verndarstofnana til að takmarka svigrúm ráðuneyta og fáokunarfyrirtækja.
Eina varanlega vörn þjóðarinnar gegn yfirráðum embættismanna og fáokunarfyrirtækja er frekari opnun þjóðfélagsins og full aðild að Evrópusambandinu.
Jónas Kristjánsson
DV