Samgönguráðuneytið hamast við að segjast ekki hafa gefið læknum nein fyrirmæli um að hunza reglur um flugöryggi. Samt hefur það ítrekað og jafnvel skriflega varað lækna, sem koma að nýjasta hneyksli íslenzkra flugmála, við að nota gildandi reglur um heilsufar flugstjóra í farþegaflugi.
Fyrirmælin kunna að kallast ítarlegar ábendingar eða þrábeiðni á sérkennilegu málfari ráðuneytisins. Orðhengilshátturinn megnar þó ekki að draga fjöður yfir þá staðreynd, að ráðuneytið hefur eindregið varað lækna við að nota grónar reglur, sem hafa verið notaðar hér á landi í rúma tvo áratugi.
Þetta eru samevrópskar reglur, sem þráfaldlega er vísað til í íslenzkri reglugerð um flug. Í meira en tvo áratugi hefur engum dottið annað í hug en, að þessar reglur væru hornsteinn íslenzkra flugmála. Enda eru þær grundvöllur þess, að Íslendingum sé treyst til að stunda farþegaflug.
Fyrir dæmigerða íslenzka handvömm hefur einn kafli ekki enn verið þýddur á íslenzku. Á þeirri handvömm starfsmanna sinna hangir samgönguráðherra eins og hundur á roði, þegar hann reynir að slaka á kröfum um öryggi í flugi á vegum íslenzkra aðila til að þjónusta heimtufrekju manna úti í bæ.
Í meira en tvo áratugi hefur hér á landi verið notuð evrópska öryggisreglan um, að flugmenn megi ekki fljúga, ef meira en 1% líkur eru á, að sjúkdómur þeirra taki sig upp meðan þeir eru að störfum. Til skamms tíma datt engum í hug að slaka á þessu, þótt sumum kunni að hafa fundizt það hart aðgöngu.
Nú gengur ráðherrann hins vegar berserksgang til að tryggja, að flugstjóri, sem hefur verið metinn með fjórfalt til nífalt meiri áhættu, fái leyfi til að fljúga. Þetta virðist ekki vera flokkspólitísk ákvörðun, heldur sauðþrái ráðherra, sem hefur látið gabba sig og hefur engan skilning á afleiðingunum.
Handafl skilningsvana ráðherra hefur leitt til þess, að valinkunnum trúnaðarlækni flugmálastjórnar hefur verið vikið úr starfi tímabundið og enginn hefur fengizt til að koma í hans stað. Ráðherrann hefur haft flugmálastjóra að fífli og mátti sá embættismaður þó ekki við fleiri uppákomum en þeim, sem fram að þessu höfðu hrjáð stofnun hans.
Engin leið var að hindra, að flumbrugangur ráðherrans fréttist til útlanda, þar sem öryggi er í meiri hávegum haft. Eftirmálin eiga eftir að koma í ljós að fullu. Evrópskir aðilar hafa sent hingað fyrirspurnir og fengið svör, sem magna grunsemdir um, að ekki sé allt með felldu hér á landi.
Flugleiðir hafa mikla hagsmuni af, að ekki sé litið á Ísland sem vandamál í flugöryggi. Undarlegt er, að félagið skuli ekki hafa gengið fram fyrir skjöldu til að reyna að vinda ofan af hvatvísi ráðherrans. Sama má segja um samtök flugmanna, sem hafa hag af, að íslenzkum flugmönnum sé treyst.
Skortur á öryggi í flugi hefur hvað eftir annað verið í umræðunni á undanförnum misserum. Umræðan segir okkur, að lélegir embættismenn og lélegur ráðherra eru að klúðra góðri stöðu, sem Agnar Koefoed Hansen, þáverandi flugmálastjóri, og ýmsir fleiri byggðu upp fyrir nokkrum áratugum.
Afleitt er, að hvert atvikið á fætur öðru skuli rýra traust á íslenzkri flugmálastjórn. Rannsóknarnefnd flugslysa er lamað fyrirbæri, embætti trúnaðarlæknis er ekki skipað, flugmálstjóri hleypur út og suður til að þóknast aumasta ráðherra landsins, sem er orðinn hættulegur öryggi flugfarþega.
Þegar mál snúast um öryggi í flugi mega ráðamenn ekki hagað sér eins og þeir séu að fjalla um sínar ær og kýr, fyrirgreiðslu í þágu þeirra frekustu.
Jónas Kristjánsson
FB