Skilaboð pílagrímanna

Greinar

Yfirstétt Alþýðubandalagsins er nýkomin úr vel auglýstri skemmtiferð og kurteisisheimsókn til Kúbu, þar sem einræðisherrann Castro hefur lengi hindrað eðlilega efnahagsþróun með því að halda dauðahaldi í nánast útdauðar kennisetningar Sovétríkjanna sálugu.

Með í för íslenzku pílagrímanna voru nokkrir þekktir kaupsýslumenn, sem sagðir eru hafa áhuga á að koma upp viðskiptasamböndum við ríkisrekin fyrirtæki Kúbu. Feta þeir í fótspor annarra, sem hafa ræktað drauma um viðskipti við alræðisstjórnir í Víetnam og Kína.

Sameiginlegt einkenni þessara ríkja er, að þar eru við völd alræðisflokkar, sem stjórna með geðþóttaákvörðunum. Vestrænar leikreglur gilda þar ekki, hvorki í ákvörðunum stjórnvalda né í niðurstöðum dómstóla, svo sem vestræn fyrirtæki hafa mátt þola í Kína.

Sameiginlegt einkenni ríkjanna er, að bjartsýnir iðjuhöldar og kaupsýslumenn frá Vesturlöndum tapa þar fjárfestingum sínum í hömlulausum tilraunum til að auka markaðshlutdeild sína í heiminum. Þannig eru vestrænar fjárfestingar í Kína orðnar rústir einar.

Þá sjaldan að Vesturlandabúum tekst að koma ár sinni fyrir borð í viðskiptum við ríkisfyrirtæki alræðisríkja, lenda þeir í að hafa verið öfugum megin við sagnfræðina, þegar alræðinu er vikið frá völdum og við taka aðrir, sem refsa kaupahéðnum fyrir stuðning við alræðið.

Það er gömul saga og ný, að fáir læra af reynslu annarra. Þess vegna voru þekktir kaupsýslumenn í föruneyti Alþýðubandalagsins á Kúbu að láta sig dreyma um, að þeir gætu haft peninga upp úr einhvers konar viðskiptum við Kúbu og jafnvel fjárfestingum þar.

Yfirstétt Alþýðubandalagsins með formanninn og þungavigtarmanninn í broddi fylkingar, Margréti Frímannsdóttur og Svavar Gestsson, telur merkilega þróun hafa átt sér stað á Kúbu. Castro sé síður en svo nokkurt nátttröll, enda leyfi hann erlenda fjárfestingu.

Raunar er orðið hefðbundið, að formaðurinn fari árlega til Kúbu eins og fyrirrennarar hennar fóru árlega til Sovétríkjanna. Kúba er þannig tekin við sem hin eina og sanna sovét-fyrirmynd, síðan það skammlífa þjóðskipulag leið undir lok í öðrum ríkjum heims.

Castro vildi að vísu ekki hitta forustusveit og kaupsýslumenn Alþýðubandalagsins, enda telur hann líklega meiri fjárhagslegan slæg í utanríkisráðherra Spánar, sem var þar í kurteisisheimsókn á sama tíma. Urðu Íslendingarnir að skoða útimarkaði í staðinn.

Gera verður ráð fyrir, að hin vel auglýsta pílagrímsferð hafi ekki verið meðvitundarlaus, heldur sé tilgangur hennar að senda íslenzkum kjósendum og væntanlegum samstarfsaðilum einhver skilaboð frá Alþýðubandalaginu nokkrum mánuðum fyrir kosningar.

Skilaboðin eru hins vegar svo undarleg, að erfitt er að skilja þau. Er Margrét að segja væntanlegum kjósendum klofningsframboðsins, að Alþýðubandalagið sé enn sama gamla Alþýðubandalagið þrátt fyrir A-flokka-framboðið? Er hún að senda Alþýðuflokknum þessi skilaboð?

Alþýðubandalagið er nánast í rúst um þessar mundir. Heilu félögin hafa horfið á braut eða verið lögð niður. Það er orðin stór spurning, hvort Alþýðubandalagið leggi yfirleitt svo mikið fylgi með sér inn í A-flokka-framboðið, að það taki því að hafa fyrir slíku samstarfi.

Skilaboðin frá Kúbu eru á þessu stigi ekki til þess fallin að auka traust óráðinna kjósenda á A-flokka-framboðinu. Pílagrímarnir þurfa að túlka þau betur.

Jónas Kristjánsson

DV