Réttindi eigenda hugverka eru komin út yfir allan þjófabálk. Gróðafyrirtæki hafa keypt upp slík réttindi og reka harðan áróður fyrir framlengingu þeirra langt út yfir gröf og dauða. Slíkur var ekki upphaflegur tilgangur laga um höfundarétt. Höfundaréttur á bara að gilda í tvo áratugi frá fyrstu útgáfu hugverka. Erlend og íslenzk lög, sem ganga lengra, eru bara ólög, sett undir þrýstingi hagsmunaaðila. Eðlilegt er, að fólk leiti leiða til að forðast ólögin. Því hafa Hróar hettir fundið leiðir til að dreifa hugverkum ókeypis framhjá handhöfum höfundaréttar. Það er sjórán nútímans, skiljanlegt sjórán.