Skilnaður valda og áhrifa

Greinar

Unga fólkið úr smáflokkunum vill sameiginlegt framboð þeirra til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn þegar í næstu kosningum. Það telur sig hafa svipaðar skoðanir og eiga auðvelt með að starfa saman. Þetta kom fram á fundi þess í Bifröst í Borgarfirði um helgina.

Stofna á formleg regnhlífarsamtök einstaklinga um kosningabandalag eftir tvo mánuði. Sameiningarhugtakið er jafnaðarmennska. Misvísandi fréttir eru af, hvort þegar hafi að öðru leyti fundizt málefnagrundvöllur eða hvort eigi að finna hann á næstu tveimur mánuðum.

Líklega er þetta vænlegasta upphafsskrefið við að koma upp vinsælum stjórnmálaflokki til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn. Grasrótin er að komast að raun um, að hún geti unnið saman. Hún fær síðan valdamenn í flokkunum til að koma með semingi í kjölfarið.

Annað skref samtakanna felst í að finna aðdráttarafl fyrir kosningabandalagið, eins konar forsætisráðherraefni, alveg eins og Reykjavíkurlistinn fann sér trúverðugt borgarstjóraefni fyrir síðustu byggðakosningar. Reynslan sýnir, að persónur sameina, en málefni sundra.

Fyrir Bifrastarfundinn voru lögð til hliðar ýmis mál og kölluð dægurmál. Meðal þeirra eru afar spennandi atriði eins og staða samtakanna á ásnum milli stuðnings og andstöðu við frekara Evrópusamstarf og staða samtakanna á ásnum milli neytenda og landbúnaðar.

Í flokki svokallaðra dægurmála er væntanlega staða samtakanna á ásnum milli framtaks annars vegar og jafnaðar hins vegar, á ásnum milli svonefndra karlamála og kvennamála, á ásnum milli örra breytinga á þjóðfélaginu annars vegar og festu í þjóðfélaginu hins vegar.

Þetta eru nokkur helztu atriðin, sem nú sundra smáflokkunum, er sameina á í kosningabandalagi. Þægilegt er að afgreiða þau út af borðinu sem dægurmál og láta væntanlega flokksleiðtoga um að ákveða afstöðuna til þeirra eftir hendinni og aðstæðum hverju sinni.

Þannig hafa myndazt stór kosningabandalög í útlöndum, svo sem demókratar og repúblikanar í Bandaríkjunum, íhaldsflokkur og verkamannaflokkur í Bretlandi. Það eru bandalög um pólitísk völd, en málefni eru breytileg eftir aðstæðum á kjósendamarkaði hverju sinni.

Slík kosningabandalög á breiðum og jafnvel óljósum málefnagrunni hafa reynzt afar heppileg leið til að ná meirihluta og koma leiðtogum bandalagsins til valda. En þau gagnast lítt eða ekki þeim, sem vilja, að völdin nýtist ákveðnum málefnum til framdráttar.

Stjórnmálakerfið stefnir í þessa átt. Flokkarnir verða stærri, en málefnalega áhrifaminni. Skoðanakannanir taka smám saman við af málefnavinnu. Tveir flokkar geta jafnvel haft skipti á málefnum, svo sem nú er að gerast í Bretlandi, til dæmis í Evrópustefnunni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að þessu leyti lengi verið á undan sinni samtíð. Hann er fyrst og fremst kosningabandalag um völd. Málefni hans eru óljós, enda eru innan flokksins deildar meiningar um flest það, sem máli skiptir. Hann er fyrirmynd Bifrastarsamtakanna.

Smám saman verða stjórnmálaflokkar að eindregnari vettvangi þeirra, sem sækjast eftir völdum. Hinir, sem sækjast eftir framgangi málefna, eiga betur heima í hagsmunasamtökum, sem reyna að sveigja almenningsálit, og þar með skoðanakannanir, að sínum málstað.

Með aukinni verkaskiptingu samtaka munu stjórnmálaflokkar sérhæfa sig í að fara með áhrifalaus völd til að framkvæma niðurstöður skoðanakannana.

Jónas Kristjánsson

DV