Skipbrot þjónkunar

Greinar

Hótanir Kínastjórnar í garð Taívans eru ekki innantómar. Ætlunin er að þröngva stjórn eyríkisins til viðræðna og undirritunar samninga um innlimun þess í Kína meginlandsins. Hótunin snýst ekki um innrás, heldur um skyndiárás á hernaðarmannvirki Taívans.

Kínverski herinn leggur ofurkapp á skammdrægar eldflaugar. Fyrir fimm árum átti hann fjörutíu, en eftir fimm ár mun hann eiga átta hundruð slíkar eldflaugar. Þá mun hann geta þurrkað út loftvarnir, flugvelli, fjarskipti og flota Taívana á 45 mínútum án þess að hiksta.

Bandarísk hermálayfirvöld hafa engin svör við þessu. Áætlanir þeirra gera ráð fyrir hefðbundinni innrás Kínverja. Þau gera ekki ráð fyrir, að Kínverjar hafi lært af aðferðum Atlantshafsbandalagsins, sem lagði til atlögu gegn Serbíu úr lofti, án þess að gera innrás.

Að loknu leifturstríði munu Taívan og Bandaríkin standa andspænis gerðum hlut. Þá verður sem fyrr freistandi að fara leið Neville Chamberlains, sem hélt, að hann gæti friðað Hitler með eftirgjöfum, en uppskar í staðinn aukna framhleypni hans og nýjar kröfur.

Í uppnámi eru meginþættir Kínastefnu Bandaríkjanna allt frá dögum Nixons fram á daga Clintons. Hún felst í að friðmælast við Kínastjórn og reyna að juða henni inn í hefðbundin milliríkjasamskipti að vestrænum hætti. Kínastjórn lítur á allt slíkt sem vestræna linku.

Þegar kínverski herinn ógnaði Taívan fyrir síðustu kosningar á eynni með því að skjóta flugskeytum í þá áttina, reyndu bandarísk hermálayfirvöld að friða Kínverja með því að frysta vopnasölu til Taívans. Þess vegna telur Kínastjórn, að ógnanir sínar skili góðum árangri.

Sagnfræði 20. aldar á að hafa kennt okkur, að eftirgjafir af tagi Chamberlains og Clintons leiða ekki til friðar, heldur til styrjaldar. Sagnfræði Kínaveldis um aldir og árþúsundir á að hafa kennt okkur, að stjórnvöld í Kína munu ekki hætta, þegar þau hafa gleypt Taívan.

Þau hafa augastað á öllu hafinu milli Filippseyja, Malasíu og Víetnams og telja raunar Víetnam eiga að vera hluta Kínaveldis sem og smáríki á borð við Bútan, Nepal og Mongólíu. Þessi útþenslustefna er mesta ógnunin við jafnvægi og frið í heiminum við upphaf 21. aldar.

Innri ólga er mikil og vaxandi í Kína. Meðal annars eru að aukast ofsóknir gegn friðsömu trúfólki, svo sem hugleiðslufólki í Falun Gong, kristnum mönnum og búddistum. Aukin iðnvæðing kallar á sjálfstæða hugsun, sem alræðisflokkur kommúnista á erfitt með að hemja.

Lausnin á vandamálum innri ófriðar hefur löngum verið að framleiða vandamál ytri ófriðar og sameina þjóðir um hann. Þannig hefur Pútín tryggt sér sigur í forsetakosningum í Rússlandi með því að sameina þjóðina í stuðningi við sóðalega innrás hans í Tsjetsjeníu.

Ágreiningur er innan valdaklíku kommúnista í Kína. Jiang Zemin forseti fer fyrir harðlínumönnum, sem hafa ráðið ferðinni að undanförnu. Meðan harðlínan leiðir til eftirgjafa erlendra ríkja mun hún eflast í sessi, en riða til falls, ef erlend ríki segja: Hingað og ekki lengra.

Bandaríkjaþing getur fellt viðskiptasamninginn, sem Clinton hefur látið gera við Kína, Evrópa getur hafnað upptöku viðræðna um viðskiptasamning við Kína, ekki verði boðin aðild að Heimsviðskiptastofnuninni og loftvarnir verði efldar í nágrannaríkjum Kína.

Kosturinn við nýjustu hótun Kína er, að hún hefur opinberað, að þjónkunarstefna bandarískra stjórnvalda gagnvart stjórnvöldum í Kína hefur beðið skipbrot.

Jónas Kristjánsson

DV