Skipst á skoðunum um samskipti á fjöllum

Hestar

Stundum er litið á hestaferðamenn annars vegar og landverði og skálaverði hins vegar sem eins konar andstæðinga, þar sem annars vegar séu óforbetranlegir lögbrjótar og hins vegar umboðsmenn lögregluríkis.

Eiðfaxi kannaði málið með því að tala við nokkra landverði og hestamenn um samskiptin. Hér á síðunni og á næstu opnu birtast svör þeirra, svo og álit hestamanna á samskiptum við landeigendur. Af svörunum má ráða, að samskiptin eru alls ekki eins afleit og ætla mætti af þekktum undantekningum, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

Í opnunni þar á eftir er svo fjallað um réttarstöðu hestaferðamanna og afstöðu kortagerðarmanna til reiðleiða.

Reiðleið um
þjóðgarðinn

Guðbjörg Guðmundsdóttir, Snæfellsþjóðgarði:

Hér hafa ekki verið nein vandamál í samskiptum við hestamenn síðan ég fór að starfa hér. Margir hringja á undan sér og fá upplýsingar.

Við erum líka að gera ýmislegt fyrir hestamenn. Í sumar kemur út kort af þjóðgarðinum, þar sem merkt er reiðleið um hann allt vestur að Ingjaldshóli. Þar á meðal eru gömlu hraunstígarnir norður frá Hellnum og suður frá Ingjaldshóli.

Lausaganga hrossa hefur verið bönnuð, svo að hestamenn eiga ekki lengur á hættu að missa lausahross í reksturinn. Menn mega reka ferðahross gegnum þjóðgarðinn, ef þau kunna að lesta sig eins og vera ber, en fara verður varlega Klettsgötuna um Búðahraun.

Reiðgata um
þjóðgarðinn

Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, Jökulsárþjóðgarði:

Lítið er um ferðir hestamanna um þjóðgarðinn, en þær ganga snurðulaust fyrir sig. Við höfum ekki yfir neinu að kvarta, en viljum, að hópar hafi samband við okkur fyrirfram. Við gefum þá ráð um áningarstaði á leiðinni. Við viljum líka minna þá á að fara ekki af reiðleiðinni inn á göngustíga.

Hér hefur í áratug verið merkt reiðgata um þjóðgarðinn frá norðri til suðurs. Hún liggur frá Ási í stórum dráttum eins og gamla leiðin um Ásbyrgi, Vesturdal, Hólmatungur og Svíndal upp á jeppaveg, sem liggur áfram til suðurs eða á reiðslóð að skálanum við Eilífsvötn. Þetta er fremur fáfarin, en greið leið fyrir hestamenn.

Hestar eru
óvelkomnir

Björk Bjarnadóttir, Herðubreiðarlindum:

Hér hafa ekki komið hestamenn þau þrjú sumur, sem ég hef verið með þetta svæði, enda er umferð hesta bönnuð um þjóðgarðinn. Fyrir þremur árum kom hingað hópur, sem var að fara Biskupaleið frá Austurlandi og tjaldaði í Grafarlandi. Úr því varð lögreglumál, en það var fyrir mína tíð í þessu starfi.

Fararstjórar
þekkja reglur

Margrét Dan Þórisdóttir, Hveravöllum:

Hér var mikið um að vera í fyrrasumar í tengslum við landsmótið. Það sumar gistu hér 30 hópar hestamanna og aðeins einn þeirra átti erfitt með að fylgja reglum um næturfrið og umgengni. Áfengi var haft um hönd hjá flestum þessara hópa, en yfirleitt af hófsemi. Við höfum yfirleitt ekki yfir neinu að kvarta í tengslum við hestamenn. Flestir hóparnir eru á vegum Íshesta, Eldhesta og Hestasports, og þar eru fararstjórar, sem þekkja allar umgengnisreglur.

Hafa of marga
hesta á mann

Helgi Hallgrímsson, Landmannalaugum:

Almennt ganga samskiptin við hestamenn vel, þótt til séu svartir sauðir í þeim hópi eins og hjá jeppamönnum. Hestafjöldinn er það eina, sem ég er óánægður með, hann er stundum er langt umfram þarfir ferðahópsins. Í flestum tilvikum ættu tveir hestar á mann að duga. Fyrir hefur komið, að menn missa stjórn á stóðinu, en yfirleitt halda menn sig á reiðleiðunum. Beztir eru hópar, sem eru undir stjórn reyndra fararstjóra, einkum hjá Hekluhestum. Hér hafa ekki orðið varanlegar skemmdir á landi af völdum hestaferðahópa. Hins vegar er ekki gott að hafa hestamenn og erlenda ferðamenn í næturgistingu í sama skála, því að hestamönnum fylgir skítur og hestalykt.

Ferðafélagsfólk
reynist þægilegt

Andreas Bergmann:

Við reynum að fylgja settum reglum á ferðalögum. Við reynum að skilja við skála í betra ástandi en við komu og við skúrum og vöskum upp. En ég þarf alls ekki að kvarta yfir umgengni í skálum, sem við komum að. Yfirleitt er gengið mjög vel um þá. Ef ekki er gámur á staðnum, tökum við með okkur sorpið, því að refurinn kemst í það, ef það er grafið niður.

Ef ég þarf að setja upp rafmagnsgirðingu við skála, reyni ég að færa hana til um kvöldið og aftur um morguninn og sparka síðan úr skítahrúgunum, því að það gerir landinu gott. Þannig er áningarhólfið í Hvítárnesi, sem aftur og aftur var kvartað um í fjölmiðlum að væri orðið eitt flag. Það er fallegasti bletturinn á svæðinu. Sama er að segja um gerðið í Bólstað í Þjórsárverum. Þar er alltaf áð í klukkutíma, en samt er þar alltaf síðbreiða af þessu fína grasi vegna áburðarins frá hrossum og fé á liðnum áratugum.

Ég hef verið mikið í hestaferðum í fjóra áratugi og hef ekki séð land, sem er skemmt af hestaferðum, ef frá eru skilin sum þröng geymsluhólf við fjallaskála. Menn fórna þessum litlu blettum fyrir þægindin af að hafa hestana aflokaða við skálana. Yfirleitt hefur ástand gróðurs á hálendinu batnað við fækkun sauðfjár á fjalli.

Flestir reyndir landverðir hafa reynzt mér þægilegir. Sumir óvanir landverðir eru dálítið smásmugulegir í samskiptum. Ég man eftir einum, sem kom í loftköstum á bíl úr Landmannahelli og klossbremsaði til að amast við því að við áðum í gróðurteygingum við vaðið á Helliskvísl á Landmannaleið til að skipta um hesta. Þeir voru þá dreifðir á stóru svæði og voru engum gróðri til tjóns. Annar bannaði trússbíl að fara með farangur okkar eftir bílvegi inn að eyðibýlinu Svínadal við Hólmatungur, þótt við værum með leyfi frá eiganda skálans að gista þar. Ferðafélagsfólkið er yfirleitt betra í samskiptum við okkur en sumir krakkar, sem eru í landvörslu á vegum ríkisins.

Hins vegar hefur undantekningarlaust verið gott að eiga við bændur um að fara um lönd þeirra til að komast inn á hálendið. Aðalatriðið er að tala við þá fyrirfram og passa síðan vel að ganga vel um. Ég óttast, að ríkið verði erfiðara í samskiptum, ef það fær aukin tök á afréttum. Ég minnist þess, þegar bóndinn missti ábúðarrétt á Skriðufelli í Þjórsárdal og skógræktin tók við. Þá var strax girt yfir gömlu, vörðuðu Sprengisandsleiðina, sem liggur frá Skriðufelli að Mýri í Bárðardal, og alls ekki sett neitt hlið. Eftir nokkrar kvartanir var sett hlið á girðinguna, en mál þetta sýnir ákveðnar tilhneigingar opinberra aðila.

Okkur tókst
Að sefa hann

Árni Ísleifsson:

Yfirleitt er samstarfið gott við landeigendur og landverði. Ég lenti þó einu sinni í því í Hólmatungum, að við höfðum fengið leyfi land-eiganda til að nota skála, sem hann átti á svæðinu. Við fórum á merktri reiðleið um tungurnar. Þá mættum við öskuvondum landverði, sem sagði, að við þyrftum sérstakt leyfi til að fara þarna um. Okkur tókst um síðir að sefa manninn. Landeigendur eru yfirleitt sáttir, ef maður hringir fyrirfram í þá. Slíkt þarf þó ekki, þegar um hefðbundnar leiðir er að ræða.

Fólk er við þig
Eins og þú við það

Bjarni E. Sigurðsson:

Samskipti við landeigendur byggjast á þeirri tillitssemi að hringja í fólkið, áður en maður kemur. Ég man ekki eftir neinum, sem hafi tekið slíku illa. Hins vegar geta menn orðið móðgaðir, ef ekki er talað við þá fyrirfram. Endur fyrir löngu man ég eftir einhverjum orðaskiptum við skálaverði eða landverði, en það er ár og dagur síðan. Yfirleitt er fólk við þig eins og þú ert við það.

Margir hestamenn
eru hrokagikkir

Einar Bollason:

Við hestamenn megum skammast okkar í samskiptum við aðra aðila. Það er allt of mikið af slúbbertum og hrokagikkjum í okkar röðum. Það bætir ekki stöðuna, ef hinum megin er háskólagenginn unglingur í landvörzlu. Ég er alltaf að suða um þetta við forustumenn samtaka hestamanna, en alltaf fyrir daufum eyrum. Landssamband hestamannafélaga er svo upptekið af breytingum á keppnisreglum, að það getur ekki sinnt hagsmunamálum hestaferðamanna. Kjarni málsins er sá, að reglur verða settar á okkur, ef við verðum ekki fyrri til að setja okkur reglur.

Um reglur fyrir hestaferðamenn vil ég taka Arnarfell sem dæmi. Vegna Arnarfellsmúlanna á algerlega að banna hestaferðir inn í Arnarfell með stærri hópa en 50 hesta. Þú verður bara að skilja afganginn af hrossunum eftir í Tjarnarveri. Það á einnig að banna slíkar ferðir, nema þær séu undir leiðsögn kunnugs manns, sem er viðurkenndur af sveitarstjórn Gnúpverjahrepps.

Svipað getur verið um fleiri staði, sem geta tímabundið verið viðkvæmir út af gróðri. Ég vil, að hestamenn setji sjálfir ítölu á ákveðin svæði. Ég vil, að samtök okkar komi fram af ábyrgð, fremur en aðrir setji reglur á okkur. Þeim mun meiri líkur eru á, að reglurnar verði skynsamlegar.

Ef aðrir setja reglurnar, er hætta á ýmsum vitleysum, eins og að fyrirskipað verði að teyma, þótt vanir menn viti, að vel lestaður rekstur fer betur með land en teymingar gera. Það skiptir líka miklu máli, að gerðar séu greinilegar götur, þar sem farið er um viðkvæm svæði, því að hrossin lesta sig því betur sem gatan er greinilegri.

Svo er það staðreynd, að við höfum ekkert val, þegar einhliða eru settar ósanngjarnar reglur. Tökum til dæmis Búðahraun sem dæmi, þar sem hestar hafa öldum saman lestað sig og búið til þrönga götu. Ef Náttúruverndarráð vill, að við hættum að nota þessa götu, verðum við bara að taka því. Við verðum að lifa í sátt og samlyndi við landeigendur og Náttúruverndarráð, jafnvel þótt okkur finnist skrítið að banna hestum að fara götu, sem hestar bjuggu til.

Í mörgum tilvikum er auðvelt og ódýrt að laga reiðgötur á viðkvæmum svæðum og koma þannig í veg fyrir, að þeim verði lokað. Mér skilst til dæmis, að Biskupstungnamenn hyggist fara með traktor að lagfæra reiðleiðina austur fyrir Bláfell til að koma í veg fyrir að hestalestirnar spilli landi á nokkrum stöðum á leiðinni.

Svo verðum við hestaferðamenn að muna, að ein símhringing í landeiganda kostar lítið til að biðja leyfis um að fara í gegn. Að öðrum kosti er gott að staldra við, meðan einhver ríður heim á bæ til að afla leyfis. Menn fá kurteisina margfalt til baka. Ég man ekki eftir öðru en jákvæðum viðbrögðum. Ef menn hins vegar fara leyfislaust um lönd, má búast við vandræðum. Þetta er bara spurning um að respektera náungann. Kurteisi kostar ekki peninga.

Menn treysta
vínlausum

Hannes Einarsson:

Samskipti við landeigendur og skálaverði hafa undantekningarlaust verið góð. Í stóru Fáksferðunum er áfengi beinlínis bannað á daginn og því sést ekki vín á nokkrum manni, þegar við eigum í samskiptum við ýmsa aðila á leið okkar. Ég held, að þessi viðhorf okkar spyrjist smám saman út og leiði til þess, að menn treysti hestaferðamönnum betur en áður.

Tvisvar hef ég þó lent í, að staðkunnugur leiðsögumaður hafði trassað að tala fyrirfram við bónda um, að við færum í gegn hjá honum. Það er eins og heimamenn hafi minni tilfinningu fyrir mikilvægi þessa atriðis en við aðkomumennirnir eða nenni síður að eyða tíma í það, sem þeir telja vera smáatriði. Ég var fararstjóri í báðum tilvikunum og sá um að hafa samband við hlutaðeigandi aðila og biðjast afsökunar. Því var vel tekið.

Skilningur
er almennur

Haraldur Sveinsson:

Í gamla daga var frjálsara en nú að fara gamlar reiðgötur um eignarlönd manna, en í seinni tíð eru menn meira farnir að vænta þess, að beðið sé um leyfi. Á móti kemur, að víðast ríkir skilningur á, að hestamenn þurfi að komast leiðar sinnar á ferðalögum. Samkomulag við landverði hefur batnað mikið síðan hestamenn fóru að gefa hey í náttstöðum í stað þess að láta hrossin lifa af landinu.

Landverðir sáttir
við hesta og menn

Hjalti Gunnarsson:

Samskipti við landeigendur og landverði eru yfirleitt góð, ef maður talar við þá fyrirfram, jafnvel þótt maður sé að fara gamla þjóðleið um einkalönd. Undantekningarlaust er því vel tekið og menn kunna að meta kurteisina. Stundum vilja ungir og óreyndir landverðir, að hestar renni ekki út úr götu og skíti aðeins á ákveðnum stöðum og þá þarf stundum lagni við að umgangast þá. Flestir landverðir eru hins vegar mjög sáttir við hesta og menn.

Ég hætti við að fara austan Bláfells, af því að ég fór þar mikið um með stóran flota, stundum í vætutíð. Farið var að sjá á landinu á einstaka stöðum, þótt allt í lagi hafi verið að fara það í þurru. Þetta er einkum aðdragandinn að Lambafellsveri beggja vegna og stígar í giljaskorningum. Það var ekki út af kvörtunum, að ég fór að fara gamla bílveginn vestan fellsins, heldur tók ég þetta upp hjá sjálfum mér.af því ég vil ekki skemma land ef annað er hægt.

Eru bara að
fylgja reglum

Ólafur B. Schram:

Sambúðin við landeigendur hefur verið hnökralaus, enda hef ég lagt mikið upp úr að fá leyfi til að fara um lönd þeirra, að leita ráða hjá þeim og fara eftir ráðleggingunum. Ég er líka duglegur við að setjast inn í eldhús hjá þeim og spjalla.

Landverðir eru upp og ofan, en þeir eru yfirleitt bara að fylgja reglum, sem þeir hafa ekki búið til, og við verðum að taka tillit til þess. Það má hins vegar ekki taka gamlar slóðir, sem hestarnir hafa búið til, og merkja þær sem gönguleiðir, sem bannaðar séu hestum.

Landverðir eru
heldur stirðir

Marinó Pétur Sigurpálsson:

Við höfum yfirleitt verið í ágætis sambandi við landeigendur. En okkur finnst landverðir að jafnaði heldur stirðir í umgengni. Okkur gramdist til dæmis í Landmannahelli, þar sem maður ríður eftir nokkuð beinum bílvegi, sem vinkilbeygir síðan til vinstri. Gömul og ómerkt reiðgata liggur hins vegar beint úr beygjunni að skálanum, sem er í augsýn. Við riðum auðvitað beinu slóðina heim, þar sem landvörðurinn tók gargandi og æpandi á móti okkur.

Ef beina á slóð hrossa af einni götu yfir á aðra, er yfirleitt nóg að stinga niður nokkrum staurum og festa eitt band á milli þeirra. Þá rata hrossin rétta leið. Í stað þess að gera þetta, sem kostar klukkutíma vinnu, vilja sumir landverðir standa í rifrildi við ferðamenn. Aðrir eru hins vegar ágætir.

Ekki má banna
gamlar leiðir

Valdimar K. Jónsson:

Ég hef alltaf reynt að tala við landeigendur, ef við þurfum að fara um land þeirra, til dæmis á mörkum afrétta og byggðar. Yfirleitt er því vel tekið, ef maður hefur fyrir því að tala við menn áður. Þá fær maður líka að vita, hvort gæta þurfi að lausum hrossum á leiðinni.

Ég man ekki heldur eftir öðru en góðum samskiptum við skálaverði, þótt sumir séu óþarflega einstrengingslegir. Það gengur til dæmis tæpast að segja, að gamlar reiðleiðir séu bannaðar slíkri umferð, svo sem leiðin frá Hungurfitjum í Hvanngil um Krók, Sátu og Torfahlaup. Betra er að merkja leiðina skýrt með stikum, svo að hópurinn fari ekki út af henni.

Aðalatriðið er, að hestarnir fari alltaf sömu, gömlu slóðina, en ekki út og austur. Landvarzlan má ekki fara út í öfgar.

Víða er viðkvæmt land á afréttum. Hestamenn þurfa að varast að fara yfir slíkt land, til dæmis mosa og alls ekki stanza á viðkvæmu landi. Með bandi er auðvelt að halda utan um hrossin á berum sandi.

Orðaskak er
alltaf til ills

Viðar Halldórsson:

Ef maður vill fara um einkalönd, er bezt að hafa samband við menn á undan ferðinni eða fara heim á bæi og tala við landeigendur, meðal annars til að fá leiðsögn um beztu og skemmtilegustu leiðirnar, sem oft liggur á lausu. Skála þarf að panta með löngum fyrirvara og tryggja sér hey og aðra aðstöðu. Ég man ekki eftir erfiðleikum í samskiptum við landverði og landeigendur. Orðaskak er alltaf til ills. Og auðvitað verður að umgangast landið með virðingu.

Ekki má æja á
viðkvæmu landi

Þormar Ingimarsson:

Ef ég þarf að fara inn í heimalönd, reyni ég að tala við bændur fyrirfram, ef þess er kostur. Einnig þarf að gæta þess að loka hliðum og taka ekki með heimahrossin, ef einhver eru. Ég hef aldrei lent í neinum leiðindum í samskiptum við bændur eða landverði.

Miklu máli skiptir að æja ekki á viðkvæmum blettum á hálendinu, heldur slá upp bandi á auðu landi, ef þess er kostur. Nú orðið stóla menn hvort sem meira á hey en beit í ferðalögum um afrétti. Hins vegar þurfum við að standa á rétti okkar, ef menn reyna að loka hefðbundnum reiðleiðum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 7.tbl. 2003