Skipt í þrjá hluta

Greinar

Auðveldara er að ræða um, hversu mikill sé stuðningur ríkisins við landbúnaðinn, þar sem landbúnaðarráðherra og utanríkisráðherra hafa náð pólitísku samkomulagi um, hvert skuli vera matið á þessum stuðningi í tilboði Íslands til alþjóðlega tollaklúbbsins GATT.

Landbúnaðarráðherra getur ekki lengur haldið fram, að stuðningur hins opinbera við landbúnaðinn nemi 12 milljörðum króna á ári eins og hann hélt fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í október. Í tilboði hans til GATT er stuðningurinn metinn á tæpa 19 milljarða.

Nýja talan er fengin með samkomulagi milli sjónarmiða, þar sem utanríkisráðherra var með tölur, sem fela í sér minni stuðning, og landbúnaðarráðherra með tölur, sem fela í sér meiri stuðning en 19 milljarðana til að sýna fram á, hve varlega ætti að fara í tilboðinu.

Nýja talan er af svipaðri stærðargráðu og tölur, sem óháðir aðilar úti í bæ hafa látið frá sér fara um þetta efni. Þær hafa verið á bilinu frá tæpum 17 milljörðum upp í tæpan 21 milljarð króna. 19 milljarðarnir í samkomulagi ráðherranna fara bil beggja í þessu efni.

Það auðveldar alla umræðu, þegar staðreyndirnar eru svipaðar að baki misjafnra skoðana. Þá þarf ekki að eyða umræðunni í, hvað séu staðreyndir, heldur er hægt að leggja áherzlu á, hvernig beri að túlka þær. Það er mikilvægt skref, að fólk sé farið að tala um sama hlutinn.

Flestir ættu að geta fallizt á, að stuðningur, sem nemur árlega 19 milljörðum plús eða mínum tvo milljarða, sé svo mikill, að minnka þurfi. Sú er raunar stefna þessarar ríkisstjórnar eins og annarra á undan henni. Það hefur bara hvorki gengið né rekið að minnka upphæðina.

Hér hefur oft verið lagt til, að leggja beri þennan stuðning niður, með því að ríkið hætti öllum afskiptum af landbúnaði, sem eru umfram aðra atvinnuvegi. Það gerist með afnámi innflutningsbanns og tolla; niðurgreiðslna og uppbóta; framlaga og framleiðslutengdra styrkja.

Hagnaðinum af þessu má skipta í þrjá jafna hluta. Sex milljarðar renni til bænda og starfsfólks í búvöruiðnaði sem skaðabætur fyrir vanefndir á hinum siðlausa búvörusamningi. Heildarupphæðin gæti verið ígildi atvinnuleysisbóta fyrir 10.000 manns í þessum greinum.

Þetta er hægt, af því að núverandi stuðningur kemst ekki til skila í vasa bænda, heldur brennur upp í herkostnaði freðmýrabænda við að stunda búskap, sem er ættaður frá tempruðum löndum og heittempruðum, einkum það, sem kalla mætti ylrækt á búfénaði á húsi.

Þótt bændum og fólki í búvöruiðnaði séu sendar atvinnuleysisbætur eða eins konar skaðabætur, geta bændur haldið áfram búskap, ef þeir vilja. Aðalatriðið er, að nýja leiðin krefji ekki skattgreiðendur eða neytendur um stuðning við framleiðslu og sölu afurðanna.

Sex milljarðar króna geta runnið til neytenda í formi lægra verðs á búvöru vegna innflutningsfrelsis og tollfrelsis afurðanna. Það bætir lífskjör hverrar fjögurra manna fjölskyldu um átta þúsund krónur á mánuði hverjum, þar með talin lífskjör bænda og búaliðs.

Sex milljarðar króna geta runnið til skattgreiðenda í formi lækkunar á tekjuskatti úr um það bil 40% af tekjum fólks niður í um það bil 25% af tekjum eða með einhverri blöndu skattalækkana. Þetta er annar eins bati á lífskjörum almennings og áðurnefnd lækkun vöruverðs.

Vegna tilboðs ráðherranna vitum við nú, að árlega eru um eða yfir 18 milljarðar til ráðstöfunar, ef þjóðin ákveður, að hún þurfi á peningunum að halda í kreppunni.

Jónas Kristjánsson

DV