Skjaldborg kamfýlumanna

Greinar

Kamfýlugerlamálið er einfalt dæmi um, að staðbundnir og pólitískir hagsmunir eru teknir fram yfir almannahagsmuni. Kjúklingabúinu að Ásmundarstöðum hefur ekki verið lokað og sýkingarsvæðið hreinsað, og ekki hefur lögreglan rannsakað vinnuferli Holtakjúklings.

Málið er einfalt. Um 40 manns sýktust af kamfýlugerli á ári hverju fram eftir áratugnum. Árin 1996 og 1997 tvöfölduðust tilvikin upp í um 90 á ári. Í fyrra tvöfölduðust þau aftur og urðu alls 220. Í ár hafa þau enn tvöfaldazt og eru komin í 255 sýkingar á miðju ári.

Áður var kamfýlugerill lítt þekktur hér á landi eins og í Noregi og í Svíþjóð. Á fáum árum hefur sprenging orðið í skráðum veikindum af völdum hans hér á landi, án þess að heilbrigðisyfirvöld hafi tekið af festu á málinu. Raunar hefur sýkingunum verið haldið leyndum.

Könnun í fyrrahaust benti til, að ástandið hjá Holtakjúklingi væri alvarlegt. Tveir þriðju hlutar mældra kjúklinga höfðu kamfýlugeril, allir frá því fyrirtæki. Samt gerðist ekkert og hefði ekki gerzt, ef Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefði ekki tekið á sig rögg í sumar.

Að mati pólitískt skipaðrar Heilbrigðisnefndar Suðurlands er frumkvæði starfsmanna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands nógu alvarlegt til að krefjast lögreglurannsóknar á frumkvæðinu, þótt ekki sé talin ástæða lögreglurannsóknar á Holtakjúklingi og Ásmundarstaðabúinu.

Einn alþingismaður, Hjálmar Árnason, sem ætlar að bjóða sig fram í kjördæmi Rangárvallasýslu í næstu kosningum, hefur sagt, að starfsmenn eftirlitsins hafi brotið lög um þagnarskyldu. Alþingismaðurinn hefur hins vegar ekki neinar áhyggjur af heilsu neytenda.

Umhverfisráðuneytið, hinn nýi landlæknir og Hollustuvernd ríkisins segja ekki ástæðu til að verða við kröfu Neytendasamtakanna um að innkalla vörur frá Ásmundarstaðabúinu. Landlæknir segir þó, að búast megi við fleiri tilvikum kamfýlusýkingar á næstunni.

Héraðsdýralæknir, heilsugæzlulæknir og heilbrigðisnefndarformaður svæðisins, allir í sama fínimannsklúbbnum, bera blak af Holtakjúklingi. Héraðsdýralæknirinn hefur miklar tekjur af fyrirtækinu og segir starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafa farið offari.

Forstjóri Holtakjúklings hefur áður lent í svipuðu máli, þegar hann var stjórnarformaður annars fyrirtækis, sem olli illræmdri sýkingu af völdum kjúklinga í Búðardal. Ítrekuð ástæða er því til að spyrja, hvort hann sé fær um að stjórna fyrirtæki í matvælaiðnaði.

Holtakjúklingur hefur áður lent í fréttum fyrir sóðaskap, þegar DV upplýsti, að úrgangi kjúklingasláturhússins á Hellu var formálalaust veitt út í Rangá. Þá var blaðið sakað um að fara offari, en ráðamenn neyddust til að knýja sláturhúsið til úrbóta í frárennslismálum.

Við höfum þannig reynslu af röð vandamála, sem tengjast einni persónu og einu fyrirtæki. Við sjáum hvernig ráðamenn í héraði og landsstjórn slá skjaldborg um fyrirtækið og saka fjölmiðla og starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um ofsóknir gegn því.

Skelfilegast við þetta mál er, að það er tilviljun, að við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands starfa tveir menn, sem taka starf sitt alvarlega. Ef þeir hefðu ekki samið skýrslu um ástandið á Ásmundarstöðum án vitundar ráðamanna í héraði, vissu neytendur ekki enn um gerilinn.

Mál þetta sýnir, að ráðamönnum í héraði og landsstjórn er skítsama um heilsu neytenda og vilja ná sér niðri á þeim, sem komu upp um sóðaskapinn.

Jónas Kristjánsson

DV