Skjálftar heims og lands

Greinar

Við lifum á mestu brotatímum mannkynssögunnar. Hálfri öld eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar er aftur farið að hrikta í heimsmálunum. Heimsveldi eru að koma og fara, gömul bandalög að riðlast og ný að myndast. Allt hefur verið á hverfanda hveli í einn áratug og verður svo annan áratug enn.

Skjálftavirkni mannkynssögunnar varðar hagsmuni Íslendinga. Hún breytir eðli samtaka, sem við tökum þátt í, og samtaka, sem við höfum ekki tekið þátt í. Hún raðar viðskiptalöndum okkar upp á nýjan hátt, skapar okkur tækifæri og spillir tækifærum okkar. Umhverfi okkar síbreytist hratt.

Landinu hefur lengi verið stjórnað af heimalningum úr lögfræðideild Háskólans, tregmæltum á erlenda tungu og áhugalitlum um hræringar umheimsins. Þeir búa í sérstöku sólkerfi, þar sem sólin heitir Davíð og þar sem verðmætasköpun felst í reikningum fyrir ráðgjafarstörf.

Starfs síns vegna er utanríkisráðherra eini ráðherrann, sem seint og um síðir er farinn að átta sig á jarðskjálftunum í umhverfinu. Þroskasaga hans hefur samt verið svo hæg, að hann áttaði sig ekki á mikilvægi Evrópusambandsins fyrr en það var búið að taka Austur-Evrópu fram fyrir Ísland.

Eftir hálfrar aldar friðsælu kalda stríðsins hófst skjálftatímabilið með hruni Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins fyrir réttum áratug. Bjartasta efnahagsvon Asíu hvarf síðan um aldamótin, þegar Japan missti fótanna í fjármálum. Á sama tíma varð Evrópa að nýju að efnahagslegum risa.

Nýjasti skjálftinn er tilkall Bandaríkjanna á þessum vetri til heimsyfirráða. Þau hafna föstum bandamönnum öðrum en Ísrael, hafna fjölþjóðasamningum, heyja stríð og hóta að heyja fleiri slík, og neita kerfisbundið að láta takmarka á nokkurn hátt svigrúm sitt til aðgerða um allan heim.

Allir þessir skjálftar og margir smærri hafa áhrif á tilveru og afkomu Íslendinga, þótt þjóðin sé nú nær hjara veraldar en hún var á blómaskeiði kalda stríðsins. Umhverfi viðskipta, efnahags og hernaðar er orðið breytt og verður innan skamms gerbreytt frá dögum kalda stríðsins.

Einu sinni voru Bandaríkin stærsta viðskiptaland okkar og einu sinni var Japan bjartasta útflutningsvon okkar. Hvort tveggja er liðin tíð. Smám saman hefur Vestur-Evrópa mjakast í þá stöðu að skila okkur öllum þorra útflutningsteknanna, án þess að landsfeður okkar hafi áttað sig.

Áður en skjálftavirknin hófst fyrir rúmum áratug var Atlantshafsbandalagið hornsteinn að tilveru okkar. Nú stefnir allt í óefni hjá því bandalagi, því að Bandaríkin eru á hraðri siglingu frá Evrópu sem bandamanni, af því að Evrópa mun harðneita að taka við tilskipunum hernaðarrisans.

Evrópa hefur sérhæft sig í hægfara útþenslu til austurs og efnahaglegum framförum, hægum að vísu, en þó hraðari en í Bandaríkjunum að undanförnu. Jafnframt hefur Evrópa orðið að hernaðarlegum dvergi, sem getur ekki tekið og vill ekki taka marktækan þátt í heimsvaldabaráttu.

Evrópa og Bandaríkin munu á þessum fyrsta áratug nýrrar aldar í auknum mæli reyna að sinna hernaðarlegum þörfum sínum utan Atlantshafsbandalagsins til að forðast árekstrana, sem þar verða óhjákvæmilegir. Evrópusambandið mun sjálft yfirtaka staðbundnar stríðsþarfir.

Undir stjórn heimalninganna ratar Ísland í þá stöðu að halda stíft í gamla hornsteina á borð við Atlantshafsbandalagið og Evrópska efnahagssvæðið, sem bila í jarðskjálftum heimsmálanna.

Jónas Kristjánsson

FB