Skoðanafasistar

Greinar

Íslenzkir skoðanafasistar eru ósáttir við fjölbreytni skoðana á málum, sem þeim eru hugleikin, svo sem tóbaksvörnum og kynþáttafriði. Þeir reyna með ýmsum hætti að ofsækja þá, sem ekki vilja binda skoðanabagga sína sömu hnútum og handhafar Stórasannleiks.

Skoðanafasistar á Alþingi hafa samþykkt ný tóbaksvarnalög, sem meðal annars banna umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir tóbaks á annan hátt en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra. Þetta er dæmigerður skoðanafasismi, þjóðfélagslegur rétttrúnaður.

Skoðanafasistum hefur ekki tekizt að banna umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir áfengis, svo sem gæðaprófanir og samanburð. Sennilega verður slíkt skoðanabann fljótlega á verkefnaskrá þeirra, því að tæpast getur áfengi talizt skaðminna fíkniefni en tóbak.

Langur vegur er frá aðvörunum á tóbaksumbúðum, auglýsingabanni, takmörkunum á viðskiptum með tóbak, banni við reykingum á opinberum stöðum og öðrum slíkum aðgerðum yfir í að banna mönnum að viðra skoðanir sínar á tóbaki frá margs konar sjónarhóli.

Skoðanabann stríðir gegn stjórnarskránni, svo og fjölþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem Ísland hefur játazt. Nýju lögin eru því marklaus að þessu leyti. En þau sýna, hversu langt skoðanafasistar eru tilbúnir til að ganga til að tryggja þjóðfélagslegan rétttrúnað.

Að undirlagi skoðanafasista hefur ríkissaksóknari höfðað mál gegn manni, sem hefur viðrað óvinsælar skoðanir á íslenzku þjóðerni og kynþáttamálum. Er hann talinn hafa brotið lög, sem segja, að ekki megi smána fólk vegna þjóðernis, litarháttar og kynþáttar þess.

Langur vegur er frá því að fyrirlíta sérkennilegar og sjaldgæfar skoðanir yfir í að banna mönnum að setja þær fram og refsa þeim síðan, ef þeir verða ekki við því. Furðulegt er, að fáir skuli verða til að gagnrýna ofsóknir skoðanafasista gegn hinum meinta kynþáttahatara.

Því miður er einnig algengt hér á landi, að smákóngar í kerfinu vilji hindra, að einstaklingar, sem hafa komizt að mikilvægum og alvarlegum staðreyndum, svari spurningum fjölmiðla um þau efni. Eitt þekktasta dæmið eru skoðanafasistar Heilbrigðisnefndar Suðurlands.

Þessi nefnd hefur mánuðum saman ofsótt einn heilbrigðisfulltrúa svæðisins fyrir að svara fyrirspurnum fjölmiðla um alvarlegt heilbrigðisástand í kjúklingaræktun og kjúklingaslátrun á Suðurlandi og nokkrum öðrum skyldum málum. Þeir vilja koma þagnarskyldu á hann.

Vegna upplýsinga heilbrigðisfulltrúans í fjölmiðlum hefur verið gert átak í að laga heilbrigðisástandið á Suðurlandi og gæta þannig hagsmuna neytenda. Heilbrigðisnefndin þakkar honum þetta ekki, heldur leggur hann í einelti. Og hún hefur komizt upp með það.

Armur skoðanafasista teygir sig víða. Í vetur hefur borið á kenningum um, að skipuleggja beri og takmarka nafnbirtingar í fjölmiðlum. Þessir rétttrúnaðarmenn vilja hafa séríslenzkar reglur, sem séu töluvert þrengri en venja hefur verið í vestrænum fjölmiðlum til þessa.

Stuðningsmenn þessa skoðanafasisma virðast fremur kjósa þau vinnubrögð að þrengja hringinn um viðkomandi mann með því að segja frá starfi hans, vinnustað og búsetu, án þess að nefna nafn hans, og varpa þannig grun á nokkra aðra, sem lýsingin gæti líka átt við.

Allur þessi skoðanafasismi sýnir, að grundvallarreglur lýðræðis eru ekki í miklum metum hjá mörgum rétttrúnaðarmönnum, sem hafa höndlað Stórasannleik.

Jónas Kristjánsson

DV