Skoðist vel og varlega

Greinar

Stjórn Sovétríkjanna hefur undanfarna mánuði látið frá sér fara yfirlýsingar og ummæli, sem benda til, að hún hafi látið nokkuð undan síga í ýmsum atriðum, sem hafa staðið í vegi nýrra og bættra samninga austurs og vesturs um takmörkun vígbúnaðar.

Sovétstjórnin segist nú tilbúin að ræða um aukið eftirlit með því, að bann við kjarnorkuvopnatilraunum sé haldið. Hún segist til viðræðu um, að kjarnaoddarnir sjálfir séu taldir fremur en flaugarnar. Og hún telur mega halda brezkum og frönskum flaugum utan við.

Stjórn Bandaríkjanna hefur tekið fréttum þessum fremur fálega og bent á, að smáa letrið í tillögunum sé stórum óhagstæðara en sovézku yfirskriftirnar gefi í skyn. Jafnframt hefur Bandaríkjastjórn á ýmsum sviðum sýnt Sovétríkjunum meiri hörku en oftast áður.

Reagan Bandaríkjaforseti og ráðgjafar hans verða að gæta sín á þessu. Greinilegt er, að Gorbatsjov flokksformaður er mun betri áróðursmaður en fyrirrennarar hans voru og er lagnari en þeir við að koma þeirri firru inn hjá okkur, að hann sé friðarins maður.

Við verðum að taka vel í hugmyndir úr austri, þótt við trúum ekki einu orði. Austur og vestur verða að halda áfram að tala saman, þótt við göngum ekki með neinar grillur um, að Sovétríkin hafi látið af hinni markvissu útþenslustefnu, sem þau hafa jafnan rekið.

Við skulum ekki gleyma, að Sovétstjórnin hefur svikið allt, sem hún hefur undirritað, oftast áður en blekið var þornað. Hún sveik samningana frá Teheran, Jalta og Potsdam í lok heimsstyrjaldarinnar. Til dæmis eru frjálsar kosningar ekki leyfðar í Austur-Evrópu.

Eitt nýjasta dæmið um óvirðinguna, sem Sovétstjórnin sýnir gerðu samkomulagi, er Helsinki-sáttmálinn, þar sem einn kaflinn af þremur fjallar um mannréttindi. Og frá upphafi hefur stofnskrá og mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna verið dauður bókstafur.

Þeir, sem telja gott, að Sovétríkin undirriti fagrar viljayfirlýsingar, ættu að lesa stofnskrá og mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þar lofa Sovétríkin meiru en þau hafa nokkru sinni síðan lofað í öðrum samningum. Þar lofa þau eilífum friði og mannúð.

Sovétríkin hafa áratugum saman stefnt að því að verða Evrasía, sem nái milli úthafanna, Atlantshafs, Kyrrahafs og Indlandshafs. Þeim hefur orðið vel ágengt, en minna þó á síðustu árum, eftir að Vesturlandabúar fóru að átta sig á markmiðum Sovétríkjanna.

Hitt er svo alltaf hugsanlegt, að Sovétstjórnin sjái villu síns vegar. Ekki er útilokað, að hún átti sig á, að heimsyfirráðastefna hennar hafi leitt út á yztu nöf og lengra verði ekki komizt. Hún gæti skilið, að kjarnorkujafnvægið hefur breytzt í kjarnorkuhættu.

Þegar ofbeldistæknin er orðin slík, að menn hafa ekki nema tíu mínútna svigrúm til að bregðast við árás mótherjans, árás þriðja aðila eða ímyndaðri árás, er ljóst, að heimurinn rambar í mikilli hættu. Við slíkar aðstæður verða menn að gefast upp á heimsvaldastefnu.

Ekki þarf einu sinni árás mótherja, heldur bilun í tölvubúnaði til að koma öllu í gang. Sömu áhrif getur haft ofbeldishneigður þriðji aðili, sem hefur komizt yfir árásarvopn og vill koma illu af stað. Atburðarásin verður svo hröð, að menn hafa ekki lengur tök á henni.

Hugsanlegt er, þótt ótrúlegt sé, að Sovétstjórnin hafi þegar áttað sig á þessu. Þess vegna þarf að taka nýjum tillögum hennar vel og varfærnislega í senn.

Jónas Kristjánsson

DV