Lífskjaravísitala Sameinuðu þjóðanna er betri mælikvarði en þjóðartekjur á mann. Hún tekur tillit til fleiri atriða, langlífis og menntunar. Þorvaldur Gylfason benti þó á í Fréttablaðinu í gær, að ýmislegt vanti í vísitöluna. Hún þarf að gera ráð fyrir tekjuskiptingu. Til dæmis eru fátækir skattaðir hér grimmar en ríkir. Hún þarf að gera ráð fyrir sjálfbærni umhverfisins. Við notum til dæmis orku, sem endurnýjast ekki. Hún þarf að gera ráð fyrir vinnutímanum. Við náum góðum lífskjörum út á þrældóm, meðan Frakkar hafa það gott. Fínt væri að fá góða stofnun til að fylla í eyður vísitölunnar.