Skólabrú

Veitingar

Skólabrú stendur tæpast undir verði. Það er um 10% hærra en á Hótel Holti, þótt matreiðslan rambi á ýmsa vegu kringum gott meðallag. Að vísu hefur henni farið mikið fram, en það var líka óhjákvæmilegt, því að hún var stundum ekki upp á marga fiska til að byrja með.

Innréttingar eru ekki fyllilega í stíl húsnæðisins. Misheppnuð er kaffistofan á efri hæð. Þar stinga í stúf lóðréttir veggir með gamalli klæðningu ljósmálaðri og hallandi loft með nýjum fjölum ómáluðum milli dökkra sperra. Einnig eru samskeyti klæðninganna óvönduð.

Matsalurinn er opinn og ekki nógu hlýlegur, þrátt fyrir daufa kertabirtu. En hann er stílhreinn, með máluðum panil, ljósum vegglit og fallegu parketti. Stólar eru þægilegir og borðbúnaður fyrsta flokks, sem og þjónustan.

Mér sýnist matseðillinn hafa verið að mestu leyti óbreyttur frá upphafi. Engin tilraun er gerð til að haga seglum eftir markaði eða árstíðum, ef frá er talinn einn fiskréttur dagsins. Að öðru leyti eru fiskréttirnir óbreyttir árið um kring, þótt fisktegundir séu misgóðar eftir árstíðum og misjafnlega fáanlegar frá degi til dags. Svona frosnir matseðlar eru úrelt fyrirstríðsfyrirbæri.

Óvenjulegir réttir

Úr skák bætir, að réttir seðilsins eru engan veginn hversdagslegir eða líkir réttum annarra húsa. Skólabrú sýnir að því leyti óvenjulegan metnað. En spennandi uppskriftir duga skammt, ef þær eru óbreytanlegar í tímans rás og misjafnlega heppnaðar í framkvæmd.

Fyrir ári man ég eftir bragðlausum humarhlaða (kannski bara skötusel) með lárperu. Um daginn bjó sami réttur hins vegar yfir góðum humri. En lárperubragðið var svo áberandi, að rétturinn náði ekki jafnvægi.

Léttsteikt andalifur var rauð og mjúk og fín, borin fram með afar sterkri koníakssósu. Ofnbakaðir sniglar í blaðdeigsvirki voru líka góðir og mun mildari á bragðið.

Ofnbakaður silungur var í lagi, en meira í frásögur færandi var skemmtilegur beinmergur, sem fylgdi honum. Þetta var hugprúð samsetning, sem lánaðist vel.

Léttsteiktar svartfuglsbringur voru alls ekki léttsteiktar, heldur miðlungi steiktar og næstum alveg dökkar í gegn. Sterk engifer-berjasósa bætti nokkuð úr skák.

Lamb að hætti Skólabrúar reyndist vera fínt skornar hryggjarsneiðar, einstaklega hæfilega eldaðar, bornar fram með einstaklega hæfilega léttsoðnu grænmeti.

Drungalegt og þungt súkkulaðiísfrauð stakk í stúf við skrautlega og létta eftirrétti. Döðlu- og hnetuterta var hins vegar góð, borin fram með þeyttum rjóma.

Bezt eftirréttanna var svokölluð Reykjavíkurvaffla, sem reyndist vera sykurterta með karamelluþaki og þeyttum rjóma, borin fram með léttsoðnum ávöxtum.

Vínlistinn er góður. Þar eru þekkt gæðavín í hóflegum verðflokki í bland við enn þekktari gæðavín á borð við Chateau Mouton Rotschild og Chateau Clerc-Milon.

Ég hef ekki tekið eftir mikilli aðsókn að Skólabrú, þrátt fyrir töluverðar auglýsingar. Ég held, að staðurinn hafi ekki farið nógu vel af stað á sínum tíma og gjaldi þess nú, þótt ráðamenn hans hafi náð betri tökum á honum.

Jónas Kristjánsson

DV