Skólabrú

Veitingar

Fagurt og frægt hús á einni beztu lóð miðbæjarins, hóflega merkt að utan, vekur væntingar, sem dempast af æpandi rauðri forstofu, en rísa aftur í stílhreinum og sældarlegum matsal. Húsbúnaður Skólabrúar er vandaður og látlaus, allt frá mataráhöldum yfir í málverk, frá línþurrkum yfir í ljósakrónur.

Umferðargnýrinn heyrist varla og dósatónlistin er lágvær. Þjónusta er kurteis og hófsöm. Gestir raða sér í þægilega armstóla og fá sér bita af sætu brauði snarphituðu. Ég reikna franskættaðan matseðilinn og fæ út, að þríréttað með kaffi kosti heilar 4.500 krónur, áður en kemur að víni.

Matreiðslan er fögur og fín, vönduð og létt, en dálítið frosin. Matseðillinn er fastur og virðist ekki taka tillit til árstíðabundins framboðs af sjávarfangi og villibráð. Hér ræður fagleg nákvæmni fremur en listræn tilþrif. Kuldaleg og blóðlaus Skólabrú stingur að því leyti eins og flestu öðru í stúf við hlýlegan og fjörugan keppinautinn Við Tjörnina á hinu horni Kirkjutorgs.

Sjávarréttasúpa og humarsúpa voru mildar og ljúfar, einfaldar að sniði. Lúðukæfa með rauðpiparkornum bráðnaði á tungu. Góð verkun var á grafinni súlubringu og taðreyktum lunda, fagurlega fram bornu á næfurþunnu, lauflaga hrökkbrauði. Bragðgóður humar og hörpuskel voru með sama umbúnaði á sams konar hrökkbrauði.

Góður hlýri, sæmilegur lax og of þurr karfi voru saman á sjávarréttadiski, með óvenjulega góðum hrísgrjónum, blönduðum grænmeti, og nákvæmlega elduðum kartöflum. Ég hefði viljað hlýrann einan. Þessar blöndur rétta, súla og lundi, humar og hörpuskel, hlýri og lax og karfi, segja óbeint, að í eldhúsinu eigi menn erfitt með að ákveða sig. Niðurstaðan verður þá eins konar sýnishorn, meðaltal eða hlutleysi.

Létteldað Skólabrúarlamb er sérgrein staðarins, afar meyrt og fínt, borið fram á sveppa- og spínatbeði með kartöfluflöguköku. Léttsteiktur lundi var fagur réttur og fremur góður, borinn fram með blóðbergs- og bláberjasósu.

Allar léttar ostakökur eru kallaðar Tiramisu á Íslandi, þótt þær séu óþekkjanlegar sem slíkar, ekki sízt á Skólabrú. Mangókrap í sítrónukörfu var ofurlétt og gott. Pina Colada ís var grófur og góður. Espresso-kaffi var fremur þunnt og borið fram á undan eftirétti, þótt beðið væri um það á eftir, enda skilja íslenzkir þjónar alls ekki, að sumir vilji slíkt kaffi sér á parti. Venjulegt kaffi var hins vegar gott.

Jónas Kristjánsson

DV