Skólarnir eru lélegir

Greinar

Samkvæmt fjölþjóðlegri rannsókn eiga Íslendingar ekki von á góðri framtíð, því að við stöndum okkur þjóða verst í efnahagslega mikilvægum skólafögum, stærðfræði og raungreinum. Við vermum botninn með nokkrum fátækum ríkjum, sem tæpast hafa ráð á skólum.

Fyrir hálfu ári var kynntur samanburður barna í 7. og 8. bekk í þessum löndum og í þessari viku var kynntur samanburður barna í 3. og 4. bekk. Eftir hálft ár verður kynntur samanburður unglinga í framhaldsskólum. Vitað er, að óbirtu tölurnar verða líka skelfilegar.

Meðan nágrannar okkar í Hollandi, Austurríki og Tékklandi standa sig vel í öllum aldursflokkum, erum við alls staðar við botninn, í hópi ríkja á borð við Grikkland og Portúgal. Þessi óbærilega staðreynd er alvarlegur áfellisdómur yfir íslenzka skólakerfinu í heild.

Helzta einkenni íslenzka kerfisins er, að það nær þriðja heims árangri með fyrsta heims tilkostnaði. Fjölþjóðlega rannsóknin sýnir raunar, að ekkert samband er milli árangurs annars vegar og fjárframlaga, fjölda kennslustunda og fjölda nemenda í bekk hins vegar.

Sérstaklega er brýnt að vekja athygli á, að ekkert samband er samkvæmt rannsókn þessari milli árangurs annars vegar og kennaralauna hins vegar. Eftirlætisafsökun skólamanna hefur þar með verið rutt út af borðinu, enda hafa þeir verið klumsa í hálft ár.

Þeir fara enn undan í flæmingi og segja nemendur í Singapúr kunna lítið í öðrum greinum, sem ekki voru mældar. Þetta fleipur gagnast okkur ekki, því að ekki er vitað um neina skyldunámsgrein, þar sem Íslendingar standi sig svo vel, að það vegi upp þessar tvær.

Björn Bjarnason menntaráðherra er raunsærri en skólamennirnir og segir ástæðu “til að efast um réttmæti þeirrar stefnu og hugmyndafræði, sem fylgt hefur verið í kennslunni til þessa”. Það er einmitt stefna fúsks og leikja, sem hefur rústað íslenzku skólana.

Um langt skeið hefur verið rekin hér á landi sú stefna, að skólarnir eigi að vera skemmtilegar félagsmiðstöðvar fyrir jafnaðarsinnað fólk, sem líður vel í vinnuhópum, þar sem einn vinnur fyrir alla. Samkeppni og sjálfsagi, frumkvæði og iðjusemi eru hornrekur kerfisins.

Mikilvægur þáttur þessa forkastanlega kerfis er, að hæfu og duglegu námsfólki er haldið niðri, svo að það trufli ekki sléttu og felldu meðalmennskuna, sem kennslan er miðuð við. Þetta kerfi framleiðir þægilega embættismenn, sem gætu ekki unnið fyrir sér úti í lífinu.

Stærðfræði og raungreinar eru ekki aðeins efnahagslega mikilvægar greinar, heldur einnig borgaralega mikilvægar, því að þær krefjast agaðrar hugsunar, rökhyggju og raunhyggju, það er að segja alls þess, sem við söknum í opinberri umræðu á Íslandi, t.d. á Alþingi.

Hér er ýmsum greinum hrært út í súpu, sem heitir samfélagsfræði. Súpan hefur eyðilagt allt, sem í hana hefur verið látið, þar á meðal sagnfræði. Ef fram færi fjölþjóðleg samanburðarrannsókn á getu í sagnfræði, fengjum við sömu útreið og í stærðfræði og raungreinum.

Við þurfum að skera upp sjálft kerfið. Við þurfum að losna við embættismennina, sem halda því uppi í trássi við vilja þjóðarinnar. Við þurfum að hreinsa út og flytja inn til bráðabirgða aðferðir og skólastefnu frá Hollandi, Tékklandi og Austurríki til að spara tíma og peninga.

Þessar aðgerðir verða að koma inn í skólakerfið að utan, því að íslenzkir skólamenn sjálfir eru klumsa aldrei þessu vant og hafa ekki sýnt neina iðrun og yfirbót.

Jónas Kristjánsson

DV