Skólarnir geta betur

Greinar

Samkvæmt fjölþjóðlegri rannsókn skiptir ekki máli, hversu miklu fé er varið til skólamála, hversu mikið námsgreinar eru kenndar og hversu margir nemendur eru á hvern kennara. Námsárangur fer ekki eftir þessum þáttum, heldur eftir kennsluaðferðum í skólastofum.

Rannsóknin náði til árangurs 13 ára nemenda í stærðfræði og raunvísindum í skólum 41 lands. Hún hefur erlendis leitt til umræðu um skólamál á almennum vettvangi, en minna meðal kennara og skólamanna, sem halda fram, að ófrjór sé samanburður af þessu tagi.

Haft er fyrir satt, að náið samhengi sé milli menntunar þjóða og efnahagslegs árangurs þeirra. Bent er á, að lönd í Austur-Asíu, svo sem Japan og Suður-Kórea, er hafa lagt mikla áherzlu á menntun, hafi nálgazt Vesturlönd að efnahagsafli og sumpart farið fram úr þeim.

Sumir vilja leita skýringanna í mismunandi lífsviðhorfi þjóða. Í Austur-Asíu sé fólk að reyna að komast áfram í lífinu og noti menntunartækifærin í því skyni. Á Vesturlöndum sé fólk hins vegar fremur í skóla af eins konar tilgangsleysi og dreifi tímanum út og suður.

Þessi skýring er ófullnægjandi, því að ýmis Evrópulönd náðu góðum árangri í samanburðinum. Þar á meðal voru lönd á borð við Holland, Sviss og Tékkland. Hins vegar voru engilsaxnesku löndin og Norðurlönd í hópnum, sem dró Vesturlönd niður í samanburðinum.

Við þurfum því ekki aðeins að átta okkur á, hvers vegna Japönum og Suður-Kóreumönnum gekk vel í samanburðinum. Við þurfum líka að átta okkur, hvers vegna Hollendingum, Svisslendingum og Tékkum gekk mun betur en Bretum, Bandaríkjamönnum. Og Íslendingum.

Þegar þjóðum í sama menningarheimi gengur misjafnlega vel á prófum og þegar skýringarnar finnast ekki í misjöfnu fjármagni, misjöfnum námstíma og misjöfnum nemendafjölda á kennara, er eðlilegast að leita þeirra í mismunandi kennsluaðferðum í skólastofunum.

Brýnt er, að kennarar og skólamenn láti af andúð sinni á samanburði af þessu tagi og reyni heldur að leita svara við spurningunni um, hvort kennsluaðferðir á Íslandi séu lakari en til dæmis í Hollandi, Sviss og Tékklandi. Við höfum ekki ráð á að halda höfðinu í sandinum.

Stærðfræði og raunvísindi hjá 13 ára börnum segja ekki alla söguna um árangur skólakerfa mismunandi landa. Gera þarf meira af slíkum rannsóknum og láta þær ná til fleiri greina og fleiri aldursflokka. Ennfremur þarf að auka hliðstæðan samanburð innanlands.

Nú er byrjað að birta opinberlega samanburð árangurs í samræmdum prófum í einstökum skólum og skólaumdæmum hér á landi. Kennarar og skólamenn hafa tekið þessum samanburði fálega eins og samanburðinum milli landa. Þeir vilja ekki láta raska ró sinni.

Við megum ekki láta fálæti þessara málsaðila trufla okkur í enn frekari samanburði og enn skarpari leit að kennsluaðferðum, sem ná árangri. Við þurfum að virkja betur orsakasamhengið milli menntunar og þjóðarhags og við þurfum að nýta betur skólafjármagnið.

Þeir tímar eru liðnir, að skólakerfið geti vikizt undan samanburði og lokað sig af í fílabeinsturni. Við lifum í lýðræðislegu markaðsþjóðfélagi, þar sem allir verða að sæta því að vera vegnir og metnir eftir árangri. Öllum er í hag, að teknar verði upp betri kennsluaðferðir.

Með því er ekki verið að efna til aukinnar streitu í skólastarfi, heldur verið að læra aðferðir, sem ná betri árangri með sama fé, sama tíma og sömu fyrirhöfn.

Jónas Kristjánsson

DV